Úr vörn í sókn

Guðjón S. Brjánsson
Guðjón S. Brjánsson

Í upphafi nýs árs óska ég íbúum á Norðurlandi vestra heilla með þeirri von að árið 2017 verði okkur öllum heilladrjúgt.

Metnaður
Ég átti því láni að fagna að fá að kynnast þessu fjölbreytilega landssvæði betur en fyrr í aðdraganda alþingiskosninga. Ég heimsótti fyrirtæki og stofnanir og ræddi við fjölda fólks.  Það sem mér er efst í huga eftir stutta en snarpa kosningabaráttu er hinn mikli kraftur, sköpunargleði og hugur sem býr í ráðamönnum og almenningi í fjórðungnum. Það blasti við metnaður hvarvetna, hvort heldur það var innan fyrirtækja, stofnana eða meðal frumkvöðla og menntafólks sem starfar á svæðinu.  Það er óneitanlega uppörvandi og fyllir mann trú á vöxt og viðgang mannlífs á Norðvesturlandi.  Hins  vegar duldist mér ekki að heimamenn eru uggandi vegna búsetuþróunar þrátt fyrir að atvinnustarfsemi sé á mörgum sviðum þróttmikil, t.d. í sjávarútvegi, í rannsóknum og vísindastarfi, í skólastarfi og í annarri opinberri þjónustu.

Byggðastefna
Heimamenn tala mjög fyrir því að nauðsynlegt sé að hugtakið byggðastefna fái nýtt og raunverulegt yfirbragð, að orðin tóm séu ekki látin duga og/eða í besta falli notuð til smáskammtalækninga.  Það þurfi áþreifanlegar og varanlegar aðgerðir til að bæta hróplegan ójöfnuð búsetuskilyrða.  Ýmis úrræði hafa verið nefnd í því sambandi og það er hlutverk þingmanna, ekki síst þeirra sem kjörnir eru til starfa fyrir landsbyggðina að vekja stöðugt athygli á þessum þáttum og vinna með heimamönnum að boðlegum lausnum.  Eitt af mikilvægustu atriðunum sem rædd hafa verið er uppbygging atvinnumála og þar hafa heimamenn kynnt stórar hugmyndir og áform sem talið er að geti skipt sköpum. Þar mun ég leggjast á árarnar með ráðamönnum í leit að farsælum lausnum til eflingar byggð til jafns við aðra landshluta.

Kosningar
Í nýafstöðnum alþingiskosningum hlutu ýmsir stjórnmálaflokkar gott gengi og eru sáttir með sinn hlut.  Nýtt stjórnmálaafl vann sigur og gaf fyrirheit um bragarbætur í veigamiklum málaflokkum sem varða hag almennings og dró ekkert af sér. Að nokkru leyti sló flokkurinn á sömu strengi og jafnaðarmenn hafa gert alla sína tíð. Flest bendir þó til að hástemmd loforð séu nú að mestu úrelt í ranni hins nýja flokks. Jafnaðarmenn settu á oddinn fyrir þessar kosningar eins og ætíð að standa vörð um heilbrigðis- og velferðarmál, verja hag eldri borgara og öryrkja, auka stuðning við barnafjölskyldur og að styðja við húsnæðiskerfið með virkum aðgerðum og þannig að auðvelda ungu fólki að eignast tryggt heimili. Rauði þráðurinn var að draga úr ójöfnuði og óréttlæti sem hefur aukist háskalega í landinu. Staðreyndin er nefnilega sú að það býr fjöldi fólks á Íslandi við raunverulega fátækt og við megum aldrei sætta okkur við það.

Grunngildin
Niðurstaða kosninga var okkur jafnaðarmönnum mikil raun og vonbrigði. Sú staðreynd að við erum mjög fáliðuð á þingi veldur því að myndun ríkisstjórnar hefur tekið á sig þá mynd sem nú blasir við. Þrátt fyrir aðild okkar að gerð fjárlaga fyrir árið 2017 þar sem náðust litlir áfangasigrar fyrir okkar tilstilli, þá tókst okkur ekki að tryggja ásættanleg framlög til velferðarmála, sérstaklega í þágu aldraðra og öryrkja en það var ásetningur okkar.  Það var hægt, en sýn og áherslur annarra flokka komu í veg fyrir að svo gæti orðið.  Það sama er að segja um menntamálin, samgöngumálin og heilbrigðismálin.

Heilbrigðisþjónustan
Mikil umræða átti sér stað um málefni Landspítala í aðdraganda fjárlagagerðar en minna um málefni annarra heilbrigðisstofnana. Við sem þekkjum öll til hins góða starfs sem unnið er hér á svæðinu, hvort sem er á Hvammstanga, Blönduósi eða á Sauðárkróki erum okkur meðvituð um vandann. Þessar starfseiningar hafa búið við erfiðan niðurskurð á síðustu árum, síst minni en Landspítali.  Stofnanir á landsbyggðinni bera harm sinn flestar í hljóði en eru gríðarlega mikilvægar einingar og vinna að fjölbreytilegum og mikilvægum verkefnum en erfiðleikar þeirra rata síður í eyru fjöldans. Markmið með sameiningum heilbrigðisstofnana undanfarin misseri áttu að tryggja betri og markvissari þjónustu. Því þurfum við að standa vörð um þessi verkefni og efla þá þætti sem mestu varða í starfseminni.

Einn af allra mikilvægustu þáttum heilbrigðisþjónustunnar er ótalinn en það er  grunnþjónustan, þ.e. heilsugæslan sem við ættum raunar að gefa miklu meira rými í umræðunni. Þessi mikilvægi hlekkur á að vera styrkasta stoðin en stendur því miður höllum fæti, ekkert síður á  landsbyggðinni en höfuðborgarsvæðinu og þar bíður okkar uppbyggingarstarf.  Verkefnin í heilsugæslu eru í senn ábyrgðarmikil og gefandi. Þar eiga sér stað breytingar og þróun í verklagi og vinnubrögðum og vaxandi flóra fagfólks myndar öflug teymi í starfi sínu.   Forvarnarstarf og mikilvæg lýðheilsuverkefni eru meðal þess sem heilsugæslan beitir sér fyrir, þeir þættir sem við getum beinlínis haft áhrif á sjálf og ráða ef til vill mestu um það hvernig okkur reiðir af heilsufarslega þegar til lengdar lætur.  

Sókn
Þau eru margvísleg hin sameiginlegu verkefni ríkis og sveitarfélaganna sem vinna þarf að.  Það verður best gert og með farsælum hætti að tengsl við þingmenn kjördæmisins séu virk og sterk. Ég heiti mínum stuðningi og að leggja af mörkum starfskrafta mína í þágu allra þeirra brýnu mála sem horfa til heilla fyrir samfélögin í kjördæminu. Þar vona ég að þingmenn muni sameinast þvert á hefðbundnar pólitískar flokkslínur.

Guðjón S. Brjánsson, alþingismaður
gudjonb@althingi.is

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir