Vegagerð og eignanám

Áskorendapistill - Kristín Ásgerður Blöndal 

Í gegn um tíðina hef ég velt fyrir mér hvernig og hvers vegna ríkisvaldið leggur hald eignir fólks. Ástæður þess eru mismunandi, en vegagerð er þó langalgengasta ástæðan.

Þegar ég var í laganámi við Háskólann á Bifröst þá náði ég að svala að nokkru leyti forvitni minni. Ég skrifaði BS ritgeð mína um það hvernig Vegagerðin nýtir heimild 37. gr. vegalaga nr. 80/2007 til eignarnáms þar sem mörgum finnst ákvæði 72. gr. stjórnarskrár um friðhelgi eignarréttarins vera þverbrotið með yfirgangi stofnunarinnar. Einnig hefur verið sívaxandi umræða um hversu mikil hagkvæmni felist í einkaframkvæmdum við vegagerð. Í ritgerðinni fjallaði ég um ákvæði stjórnarskrár um friðhelgi eignarréttarins, sögu ákvæðisins, samanburð við Mannréttindasáttmála Evrópu og fór einnig yfir þau skilyrði sem ákvæðið setur fyrir skerðingu eignarréttar. Ég skoðaði einnig eignarnámsheimildar vegalaga og fjallað sérstaklega um heimildina í núgildandi lögum. Lauslega var litið á skilgreiningu hlutverks Vegagerðarinnar og síðan hvað felst í ákvörðun um eignarnám, hver það er sem tekur slíka ákvörðun og hvernig það er gert. Skoðaði ég dómaframkvæmd sem féll að efninu og að lokum hvort og hvernig einkaaðilar geti tekið land eignarnámi.

1. mgr. 72. gr. stjórnarskrár lýðveldisins Íslands segir „eignarrétturinn er friðhelgur. Engan má skylda til að láta af hendi eign sína nema almenningsþörf krefji. Þarf til þess lagafyrirmæli og komi fullt verð fyrir.“

Almenn eignarnámsheimild til handa Vegagerðinni er í sjöunda kafla vegalaga, nánar tiltekið í 1. mgr. 37. gr. og hljóðar svo:

"Landeiganda er skylt að láta af hendi land sem þarf til þjóðvegagerðar og hvers kyns veghalds, svo sem breytinga, breikkunar eða viðhalds, enda komi fullar bætur fyrir. Landeiganda ber jafnframt að leyfa efnistöku í landi sínu til vegagerðar hvort heldur er grjót, möl eða önnur jarðefni, enda bætist það að fullu. Framangreind skylda til að láta eignarréttindi af hendi nær einnig eftir atvikum til annarra rétthafa sem eiga réttindi á landi."

Vegna afmörkunar ritgerðarinnar við vegagerð þá var skoðað hvort einkaaðilar geti tekið land eignarnámi vegna vegagerðar. Það er kveðið skýrt á um það í 1. mgr. 12 gr. laganna að Vegagerðin sé veghaldari þjóðvega en samt sem áður er vegamálastjóra veitt fortakslaus heimild í 2. mgr. 14 gr. til að framselja veghald einstakra vegarkafla þjóðvega til þriðja aðila að nokkru eða öllu leyti. Þá vaknar sú spurning hvort að með slíku framsali til þriðja aðila fylgi með heimild til eignarnáms. Þegar eignarnámsheimild vegalaga er skoðuð og rýnt í frumvarpið sem fram var lagt til laganna verður ekki séð að sú sé raunin. Þvert á móti er áréttað í frumvarpinu að „Ekki eru gerðar breytingar á því að Vegagerðin ákveði hvort þörf sé á eignarnámi og verður framkvæmdin öll hjá stofnuninni“ Verður því ekki séð að þó svo að veghald ákveðins vegarkafla, þar með talin bygging og rekstur vegarins, væri framselt til einkaaðila skv. heimild í 14. gr. laganna, þá væri þeim aðila ekki leyfilegt, skv. almennri eignarnámsheimild vegalaga, að taka land eignarnámi undir vegarkaflann væri þess þörf. Því samkvæmt almennri eignarnámsheimild 37. gr. vegalaga er það aðeins á hendi Vegagerðarinnar að ákveða eignarnám.

Vegna umræðu um vegaframkvæmdir í einkaframkvæmd var skoðað hvort og hvernig einkaframkvæmd í vegagerð hefur verið unnin. Kom í ljós að á þeim tíma sem ritgerðin var skrifuð um mitt ár 2010 hafði aðeins eitt verk verið unnið í einkaframkvæmd, þegar Spölur hf. byggði Hvalfjarðargöng, en til þeirrar framkvæmdar þurfti sérlög þar sem framsalsheimild eignarnáms er ekki til staðar í vegalögun. Síðan þá hefur gerð Vaðlaheiðarganga farið af stað. Vegna þeirra framkvæmda voru sett Lög um stofnun hlutafélaga um vegaframkvæmdir nr. 97/2010 sem heimila Vegagerðinni að taka þátt í stofnun hlutafélags sem hafi það að markmiði að standa að gerð Vaðlaheiðarganga ásamt nauðsynlegri veglagningu að göngunum auk undirbúnings. Í 7. gr. þessara laga er að finna eignarnámsheimild sem er svohljóðandi "Vegagerðinni er heimilt að taka eignarnámi land, jarðefni og önnur réttindi sem þörf verður á vegna framkvæmda sem félög skv. 1. og 2. gr. standa að. Um málsmeðferð vegna eignarnámsákvörðunarinnar gilda þau ákvæði VII. kafla vegalaga sem varða eignarnám."

Það er því alveg ljóst að til að eignarnám vegna vegagerðar í einkaframkvæmd geti farið fram þá þarf Vegagerðin að eiga verulegan hluta í félaginu og sérlög þarf að setja um framkvæmdina til að heimilt sé að taka land eignarnámi til framkvæmdarinnar.

Ritgerðina er að finna á eftirfarandi slóð http://hdl.handle.net/1946/6418

Ég skora hér með á skólasystur mína frá Húnavöllum, Sesselju Guðmundsdóttur, að skrifa næsta pistil.

Kristín Ásgerður Blöndal er fædd og uppalin á Blöndubakka í Refasveit. Foreldrar hennar eru Jóhanna Rósa Blöndal og Sigurður Sigurðsson (d. 21.11.1999).

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir