Vegir og vegleysur – aðgerðir strax

Bjarni Jónsson.
Bjarni Jónsson.

Bílvelta á Skógarstrandarvegi í dag og fleiri í vikunni. Vatnsnesvegur svo holóttur að nálgast hættumörk. Vegurinn út á Reykjaströnd ófær vegna aurs og skriðufalla. Svona mætti áfram telja. Þannig hljóma fréttirnar nú dag eftir dag.Um marga þessa sveitar og héraðsvegi er þó börnum ekið daglega í skóla. Í haustmyrkri og rigningu vaðast þessir malarvegir upp í aur og holum og verða stórhættulegir og nánast ófærir.

Viðhald og endurbætur á þessum vegum hefur drabbast niður. Og þrátt fyrir allt góðæristalið og útbólginn ríkissjóð er eins og stjórnvöld séu hrokkin úr sambandi við þjóðina á stórum landssvæðum. Sveita eða héraðsvegir tengja saman fólk og byggðir innan héraða og jafnvel milli landshluta og um þá er börnum ekið í skóla eða fólk sækir dagalega vinnu og nauðsynjar.

Eftir ferðir mínar að undanförnu verður mér hugsað m.a. til vegarins norður i Árneshrepp,  út Barðaströnd og í Örlygshöfn og Breiðuvík, um Skógarströnd, Vatnsnes, út á Reykjaströnd, Hegranesið, um uppsveitir Borgarfjarðar eða um Mýrar, inn til dala í Skagafirði og  Húnavatnssýslum. Svona mætti áfram telja. Aukinn ferðamannastraumur og stórflutningar á rútum og flutningabílum eykur enn álagið á þessa vegi og kallar á tafarlausar aðgerðir.

Holóttur vegur á Reykjaströnd. Það er stórátaks þörf í vegamálum á landsbyggðinni. Fáir eða engir af þessum vegum sem ég nefndi eru á raunverulegri samgönguáætlun í ár eða á næsta ári.
Ég heiti því að beita mér af öllu því afli sem ég hef fyrir því að endurbótum og uppbyggingu  héraðs og sveitavega landsins verði hraðað og þeir settir í forgang.

Bjarni Jónsson

Höfundur gefur kost á sér í 1. sæti á lista VG í forvali í Norðvesturkjördæmi.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir