Velferð og verðmætasköpun

Teitur Björn Einarsson
Teitur Björn Einarsson

Í gegnum tíðina hafa verið settar á fót fjöldinn allur af opinberum nefndum og starfshópum sem skilað hafa af sér úttektum á byggðum landsins og skýrslum uppfullum af hugmyndum og hvað þurfi að gera til að styrkja stoðir þessara sömu byggða. Fjölmiðlar gera þessu skýr skil og stjórnmálamenn tjá sig um niðurstöðurnar. En svo gerist lítið enda oftast nær um að ræða tillögur til að bregðast við vanda en ekki hvernig leysa eigi hann. Byggðastefna sem virkar er sú sem raunverulega tryggir samhengi á milli velferðar og verðmætasköpunar fyrir alla landsmenn.

Mikilvægur þáttur þess að byggðir landsins haldi samkeppnishæfni sinni gagnvart höfuðborgarsvæðinu er að þjónustan sem veitt er af hálfu ríkisins, og fólk greiðir fyrir í formi skatta, sé viðunandi um allt land. Tryggja þarf betra aðgengi að heilbrigðisþjónustu, jöfn tækifæri til menntunar og enn fremur þurfa félagsinnviðir á borð við samgöngur, raforkumál og fjarskiptamál að vera í lagi. Þannig bætum við lífskjör og öryggi íbúa og tryggjum að skilyrðin fyrir atvinnuuppbyggingu séu til staðar.

Eins liggur það í augum uppi að forsenda fyrir aukinni velferð er að fólk hafi svigrúm til verðmætasköpunar og fái raunverulega notið afrakstur erfiði síns. Því miður er það tilhneiging af hálfu hins opinbera að draga frekar þrótt úr framtakssömu fólki með íþyngjandi gjöldum og reglum. Það mega ekki vera þannig þættir í kerfinu að um leið og lítil nýsköpunarfyrirtæki ná fótfestu séu þau barin niður með of miklum álögum og kvöðum þannig að lítið fjármagn verði eftir til frekari uppbyggingar og framkvæmda.

Inngrip hins opinbera íþyngja ekki eingöngu atvinnulífinu. Huga þarf að fleiri þáttum eins og húsnæði. Skortur á nýbyggingum er ekki alfarið bundinn við höfuðborgarsvæðið heldur víða um landið þar sem atvinnuuppbygging á sér stað. Fólk fæst síður til að setjast að á nýjum stað ef húsakostur er óviðunandi. Með einfaldari byggingarreglugerð og lægri gjöldum mætti til að mynda lækka byggingakostnað verulega. Sá möguleiki er nefnilega fyrir hendi að oftar en ekki er hið opinbera hluti vandans en ekki lausnin.

Sóknarfærin eru til staðar og landsbyggðin hefur fjölmarga kosti sem þéttbýlið hefur ekki. En lífsbaráttan getur vissulega verið hörð, atvinnuástand oft á tíðum ótryggt, og því verður að halda verður vel á spöðum og nýta þau tækifæri sem gefast til að treysta atvinnu og byggð um land allt. Hið opinbera hefur hlutverki að gegna við eflingu grunnþjónustu og uppbyggingu innviða. Frekari skýrslur um þann þátt ríkisvaldsins á landsbyggðinni ættu að vera óþarfar. Breið pólitísk samstaða verður hins vegar að nást um að hrinda nauðsynlegum úrbótum í framkvæmd og þeim sé forgangsraðað í þágu allra landsmanna á sanngjarnan hátt.   

Teitur Björn Einarsson

Höfundur er lögfræðingur og  sækist eftir 1. sæti í prófkjöri Sjálfstæðismanna í Norðvesturkjördæmi

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir