Hátíðarvinastundir á Ársölum á Sauðárkróki

Haldnar voru hátíðarvinastundir á leikskólanum Ársölum á Sauðárkróki sl. föstudag í tilefni af 100 ára afmæli kosningaréttar kvenna á Íslandi. Að sögn Önnu Jónu Guðmundsdóttur leikskólastjóra var farið þess á leit við leikskóla og aðrar skólastjórnendur í landinu að finna leið til að minnast þessa viðburðar fyrir 100 árum með eftirtektarverðum hætti á árinu 2015. Eftir umhugsun og vangaveltur varð niðurstaðan sú að gera söngdagskrá fyrir vinastund þar sem sungin yrðu lög við texta eftir konur.

Útbúið var hefti með nokkrum lögum eftir konur sem æfð voru sérstaklega fyrir þetta tilefni og ákveðið að flytja þessa dagskrá föstudaginn 20. nóvember á báðum stigum Ársala. Íslenska fánanum var flaggað á Völlum og Strönd og allir sungu saman lög eftir konur úr heftinu.

Auk þess tróðu nokkrar konur úr starfsmannahópnum upp, ein þeirra lék „elvan mín bláa“ á harmónikku og þrjár aðrar sungu lagið „einskonar ást“ . Síðan sungu tvær ungar dömur lagið „Með þér“ og hlutu mikið klapp fyrir.