87 nemendur brautskráðust frá FNV

Hópmynd af þeim brautskráningarnemum sem viðstaddir voru athöfnina í gær.  MYND: PIB
Hópmynd af þeim brautskráningarnemum sem viðstaddir voru athöfnina í gær. MYND: PIB

Fjölbrautaskóla Norðurlands vestra var slitið í 39. sinn við hátíðlega athöfn í íþróttahúsinu á Sauðárkróki í gær, föstudaginn 25. maí, að viðstöddu fjölmenni. Alls brautskráðust 87 nemendur frá skólanum að þessu sinni en í máli skólameistara, Ingileifar Oddsdóttur, kom m.a. fram að 2.577 nemendur hafa brautskráðst frá skólanum frá upphafi skólahalds haustið 1979. 

Á vef FNV segir að í ræðu sinni greindi skólameistari m.a. frá fjölbreyttu námsframboði skólans í þágu atvinnulífs á svæðinu og þakkaði fyrirtækjum, stofnunum og sveitarfélögum fyrir afar ánægjulegt samstarf í þeim efnum. Þá greindi hún frá viðurkenningu SFR þar sem skólinn er í hópi fimm fyrirmyndarstofnana árið 2018. Hún greindi frá könnun sem sýnir að skólinn kemur afar vel út þegar kemur að námsgengi fyrrum nemenda skólans í námi við Háskóla Íslands auk þess að greina frá könnum á vegum Samtaka atvinnulífsins sem sýnir að skólinn skilar nemendum mjög vel undirbúnum til háskólanáms. Þennan árangur þakkaði hún m.a. góðum starfsanda hjá frábæru starfsliði skólans og dyggum stuðningi sveitarfélaga og atvinnulífs.

Kristján Bjarni Halldórsson, flutti vetrarannál skólans þar sem stiklað var á stóru í starfsemi hans. Þar kom m.a. fram að á haustönn voru 496 nemendur við skólann. Þar af 133 í hreinu fjarnámi. Nemendur á vorönn voru 572 en þar af voru ríflega 100 grunnskólanemendur sem sóttu námskeið í iðnkynningu. Þá voru starfsmenn 53 á haustönn en 56 á vorönn.

Að loknum vetrarannál fór fram brautskráning og afhending viðurkenninga, sem var í höndum skólameistara og deildarstjóra skólans. Alls brautskráðust 87 nemendur af eftirtöldum námsbrautum sem hér segir, en alls voru gefin út 90 prófskírteini:

Stúdentsprófsbrautir: 41
Fiskvinnslubraut: 9
Húsasmíðabraut: 10
Meistaranám iðnbrauta: 10
Rafiðna- og bílgreinadeild: 2
Sjúkraliðabraut: 11
Starfsbraut: 1
Vélvirkjun og vélstjórn: 6

Ásdís Ósk Elvarsdóttir flutti ávarp brautskráðra nemenda, Emma Björnsdóttir flutti ávarp 20 ára brautskráningarnema og Halldóra Þórdís Jónsdóttir fluttir ávarp 30 ár brautskráningarnema.

Að lokum flutti skólameistari brautskráðum nemendum heilræði fyrir lífið, óskaði þeim velfarnaðar og sagði skólanum slitið.

Heimild og sjá nánar á vef FNV >

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir