Agnes og Friðrik dæmd að nýju í haust

Lögfræðingafélag Íslands ætlar í haust að efna til ferðar á slóðir síðustu aftökunnar á Íslandi og „endurupptaka“ mál þeirra Agnesar Magnúsdóttur vinnukonu á Illugastöðum og Friðriks Sigurðssonar frá Katadal. Þau voru dæmd til dauða og tekin af lífi við Þrístapa í Vatnsdalshólum þann 12. janúar 1830 fyrir að myrða þá Natan Ketilsson bónda á Illugastöðum og Pétur Jónsson vinnumann.

Eftir vettvangsferð á helstu sögustaði verður réttur settur í Félagsheimilinu á Hvammstanga þar sem lögmenn, saksóknari og dómarar munu fara yfir málið út frá fyrirliggjandi gögnum og dæma þau Agnesi og Friðrik upp á nýtt.

Saksóknari verður Sigríður Friðjónsdóttir ríkissaksóknari en verjendur verða hæstaréttarlögmennirnir Gestur Jónsson og Guðrún Sesselja Arnardóttir.

Dómarar hafa verið skipaðir: Davíð Þór Björgvinsson fv. dómari við Mannréttindadómstól Evrópu, Ingibjörg Benediktsdóttir fv. hæstaréttardómari og Kolbrún Sævarsdóttir héraðsdómari.

Hér er að sjálfsögðu um sýndarréttarhöld að ræða og ferðin fyrst og fremst ætluð fyrir félaga í Lögfræðingafélagi Íslands og maka þeirra. 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir