Áhugamaður um forvarnir áfengis og vímuefnaneyslu

Sigurður Páll Jónsson kemur nýr inn í þingmannalið Norðvesturkjördæmis en hann sat sem varamaður á Alþingi haustið 2013. Sigurður Páll býr í Stykkishólmi, kvæntur Hafdísi Björgvinsdóttur og eiga þau þrjú börn og þrjú barnabörn. Sigurður er menntaður rafvirki og með skipstjórnar og vélstjórapróf á báta að 30 tonnum og hefur starf hans verið sjómennska undanfarin ár auk þess að vera varaþingmaður og bæjarfulltrúi í Stykkishólmi síðan árið 2014.
Sigurður Páll er þingmaður vikunnar á Feyki.

 Hvenær og hvernig vaknaði áhugi þinn á pólitík? -Áhugi minn á stjórnmálum hefur verið einhver síðan ég var unglingur.

Hvenær settist þú fyrst á þing? -Ég sat sem varamaður á alþingi fyrst haustið 2013.

Hvaða máli værir þú líklegur til að beita þér fyrir á Alþingi framar öðrum? -Þau mál sem ég er líklegur að beita mér fyrir á Alþingi er allt sem eflir byggðafestu á landsbyggðinni og að landsmenn hvar sem þeir búa njóti sömu þjónustu.

Telur þú að stjórnmálaumhverfið hafi breyst eða sé að breytast frá því sem áður var? -Já, stjórnmálaumhverfið hefur breyst mikið frá því sem áður var.

Telur þú að fjölmiðlar, Facebook og aðrir samfélagsmiðlar, hafi áhrif á skoðanir og gjörðir þingmanna? -Það er eflaust eitthvað um það að Facebook og aðrir samfélagsmiðlar hafi áhrif á skoðanir og gjörðir þingmanna. Mannheimurinn hefur breyst svo mikið á fáum árum við alla þessa samfélags miðla tækni.

Hvaða verkefni bíður helst íbúa Norðvesturkjördæmis að þínu mati? -Ég mundi segja að helsta verkefni íbúa Norðvesturkjördæmis sé að efla atvinnutækifæri og búsetuskilyrði í samvinnu við sveita og bæjarstjórnir og að sjálfsögðu alþingismenn.

Hvaða málefni telur þú að brenni helst á íbúum Norðurlands vestra? -Þau málefni sem brenna helst á íbúum Norðurlands vestra eru samgöngumálin, heilbrigðismálin, atvinnumálin, lögreglumálin, tryggt rafmagn fyrir öll svæði og örugglega fleira.

Hvaða áhugamál áttu fyrir utan pólitíkina? -Mín áhugamál hafa verið mörg í gegnum tíðina, undanfarin ár hef ég sungið í tveimur kórum, karlakór og kirkjukór. Ég hef lengi verið áhugamaður um forvarnir áfengis og vímuefnaneyslu og nú síðari ár forvarna af ýmsu tagi sem stuðla að betri lýðheilsu. Slíkar forvarnir hljóta að spara pening í heilbrigðiskerfinu, en þá er ég kominn útí pólitík aftur.

Hver er uppáhalds tónlistarmaðurinn? -Ég á marga uppáhalds tónlistamenn og konur en hugsa að John Lennon heitinn standi hjarta mínu nær en margir aðrir.

Hver er uppáhalds kvikmyndin? -Upáhalds kvikmyndirnar eru margar. Einhverja hluta vegna núna er Gardner með Peter Sellers og Truman show með Jim Carrey sem koma upp í hugann.

Hvert er uppáhalds íþróttafélagið? -Uppáhalds íþróttafélag hlýtur að vera Snæfell í Stykkishólmi. Svo á Skallagrímur í Borgarnesi stað í hjarta mínu.

 

Ein góð saga í lokin:

Ég á þrjá bræður en enga systur. Ég er þriðji í röðinni og átti að verða stelpa, var mér sagt. Mamma fæddi okkur heima á Helgugötu 8 í Borgarnesi og þegar von var á fjórða barninu, sem að sjálfsögðu átti að vera stelpa, var ég á áttunda ári og var sendur í sveit til föðursystur minnar á meðan fram í Lundarreykjadal. Svo kom frétt með mjólkurbílnum: „Það fæddist drengur í nótt þú hefur eignast bróðir,“  þá átti ég að hafa sagt: „Jæja, það var betra en ekkert!“

Áður birst í 47. tbl. Feykis 2017

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir