Árbækur Ferðafélags Íslands til allra félagsmanna Kaupfélags Skagfirðinga

Árbækurnar þrjár um Skagafjörð eru hinar veglegustu.
Árbækurnar þrjár um Skagafjörð eru hinar veglegustu.

Föstudaginn 14. október var haldin samkoma í Kjarnanum á Sauðárkróki í tilefni þess að Kaupfélag Skagfirðinga hyggst færa öllum félagsmönnum sínum þrjár Árbækur Ferðafélags Íslands. Bækurnar fjalla allar um Skagafjörð og voru gefnar út hver á sínu árinu, 2012, ´14 og ´16. Fyrsta bókin fjallar um Skagafjörð vestan Vatna og heitir Frá Skagatá að Jökli en hinar tvær austan Vatna, Frá Jökli að Furðuströndum og Frá Hjaltadal að Úlfsdölum.

Til samkomunnar voru boðnir deildarstjórar Kaupfélagsins sem formlega tóku við fyrstu eintökum bókanna sem haganlega er komið fyrir í viðhafnaröskju sem  skartar m.a. fallegum myndum úr firðinum. Bókunum verður dreift til félagsmanna, sem telja rúmlega þúsund manns, en þeir Snorri Evertsson, fyrrum samlagsstjóri og Sveinn Sigfússon, fyrrum verslunarstjóri á Eyri, sjá um það verk. Viðstaddur afhendinguna var höfundur bókanna, Króksarinn Páll Sigurðsson prófessor. Sagði hann það vera góða tilhugsun að vita til þess að bækurnar yrðu varðveittar saman á flestum heimilum Skagafjarðar. Sagði hann að gaman hefði verið að skrifa um sitt heimahérað en það hafi alls ekki verið auðvelt. „Árbókahöfundar er dauðhræddir við að setja vitlaus örnefni inn og þá er við ægilegan þjóðflokk að ræða sem eru heimamenn,“ sagði Páll og bætti við að þeir væru ekki alltaf árennilegir. En slíkt kom ekki upp núna að sögn Páls. Í máli Þórólfs Gíslasonar kaupfélagsstjóra kom fram að samkomulag hefði verið gert við Ferðafélagið að þegar að útgáfu þriðju bókarinnar kæmi yrði félagsmönnum færðar þær allar í gjöf í tilefni af 125 ára afmæli félagsins. Taldi hann að vel væri að þessu staðið enda mikilvægt að félagsmenn hafi aðgang að upplýsingum og yfirlit yfir héraðið á einum stað. Bækurnar telja yfir 700 blaðsíður, með fjölda mynda og eru allar hinar glæsilegustu.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir