Arto Paasilinna og Jón Kalman Stefánsson meðal uppáhaldshöfunda

Guðmundur Jónsson. Mynd úr einkasafni.
Guðmundur Jónsson. Mynd úr einkasafni.

Það er Guðmundur Jónsson á Hvammstanga sem situr fyrir svörum í Bók-haldinu að þessu sinni. Guðmundur er 56 ára gamall og starfar við Bókasafn Húnaþings vestra sem bókavörður, eða sem deildarstjóri útlánadeildar, eins og hann titlar sig til gamans. Guðmundur er Húnvetningur í húð og hár en hann er uppalinn á Ytri-Ánastöðum á Vatnsnesi þar sem hann bjó til ársins 1995 þegar hann flutti til Hvammstanga. Síðustu 14 árin hefur hann unnið á bókasafninu og unir hag sínum vel meðal bókanna.

Guðmundur segir að hann geti kallast alæta á bækur. Hann les ævisögur og sagnfræðirit en ljóðabækur les hann frekar lítið, lítur þó stöku sinnum í þessa gömlu góðu s.s Sigurð í Holti, Örn Arnarson og Stein Steinarr. „Mikill meirihluti þess sem ég les eru þó skáldsögur, jöfnum höndum íslenskar og þýddar. Þar eru krimmarnir fyrirferðarmiklir en þó hef ég t.d. síðasta árið lesið nokkrar bækur eftir Isaac Bashevis Singer og Dalalíf eftir Guðrúnu frá Lundi,“ segir Guðmundur aðspurður um bókmenntasmekk sinn.

Þegar Guðmundur er inntur eftir því hvaða bækur hafi setið efst á vinsældalistanum þegar hann var að alast upp nefnir hann bækurnar eftir Ármann Kr. Einarsson og Enid Blyton, Frank og Jóa bækurnar, Bob Moran og Sígildar sögur Iðunnar. „Þegar ég var sex ára las ég mikið Handbók bænda 1967. Það var ekki vegna búskaparáhuga, heldur var vísa eftir Pál Ólafsson með hverri viku í almanakinu og lærði ég þær margar. Ég stúderaði mikið Orðabók Menningarsjóðs þegar ég var tíu ára og stuttu síðar las ég ég bækur Elínborgar Lárusdóttur, Horfnar kynslóðir sem er fjögurra binda skáldsaga um Djúpadalsættina í Skagafirði.“

Hver er þinn uppáhaldsrithöfundur/ rithöfundar og hvers vegna? Arto Paasilinna, Jón Kalman Stefánsson, Böðvar Guðmundsson og Þórarinn Eldjárn. Þetta eru allt góðir sögumenn með skemmtilegan húmor.

Hvaða bók/ bækur er/eru á náttborðinu hjá þér þessa dagana? Drekkingarhylur eftir Paulu Hawkins, Þeir sem fara og þeir sem fara hvergi eftir Ferrante og Ferðafélagsbækurnar  Í Dali vestur og Í fjallhögum milli Mýra og Dala.

Ertu fastagestur á einhverju bókasafni? Nei, ég vinn þar.

Áttu þér uppáhaldsbókabúð (hér heima eða erlendis)? Nei.

Hvað áttu margar bækur í bókahillunum heima hjá þér? Eitthvað á annað hundrað.

Hvað kaupirðu eða eignast að jafnaði margar nýjar bækur yfir árið? Ég kaupi örsjaldan bækur, hef jú heilt almenningsbókasafn við höndina.

Eru ákveðnir höfundar/bækur sem þú færð „alltaf“ í jólagjöf? Ekki lengur en dæmi um slíkt frá fyrri tíð eru bækur Alistairs MacLeans og uppvaxtarsögur Sigurðar A. Magnússonar.

Hefur einhver bók sérstakt gildi fyrir þig? Nei

Hefur þú heimsótt staði sem tengjast bókum eða rithöfundum þegar þú ferðast um landið eða erlendis? Nei.

Ef þú ættir að gefa einhverjum sem þér þykir vænt um bók, hvaða bók yrði þá fyrir valinu?  Það færi nú sjálfsagt eftir hver væri en kannske myndi ég bara taka viðkomandi með á Bókasafnið og hjálpa honum að finna sér bók til láns.

 

Áður birt í 33. tbl. Feykis 2017

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir