Áskorendapistill - Ægir Finnsson

 Byrjaðu núna!

“I felt at that time I thought I was getting into it too late. In other words, I thought the cartoon business was established in such a way that there was no chance to break into it.” – Walt Disney

Það er sérstakt að hugsa til þess að Walt Disney hélt að hann væri of seinn inn í teiknimyndabransann þegar hann flutti til Los Angeles 1923. Það þýddi þó ekki að hann léti ekki reyna á það. Á næstu fimm árum náði hann að selja tvær teiknimyndaseríur og ekki fyrr en mörgum árum seinna urðu til þær teiknimyndapersónur sem hvert mannsbarn á jörðinni þekkir.

Sjálfur flutti ég, þá 17 ára, til Reykjavíkur 2001 og vann hjá sama fyrirtækinu í 13 ár áður en ég þorði að fara á fullt í eitthvað annað. Ekki það að ég hafði ekki reynt það, 14 ára stofnuðum við það sem síðar varð Hofsprent á Hofsósi. Meðfram starfi mínu í Reykjavík reyndi ég svo að láta eigin hugmyndir verða að veruleika en það var ekki fyrr en 2014 sem ég sagði upp og stofnaði aftur eigin rekstur. Í dag, þremur árum síðar, á ég mis stóra hluti í þremur fyrirtækjum. Eitt í fullum rekstri með 6 starfsmenn og síðan tvö sprotafyrirtæki, mis langt á veg komin - en ekkert fyllir mann af eldmóði eins og að vinna að eigin hugmyndum en það væri sjálfsagt umræðuefni fyrir alveg sér pistil. Ekkert af þessum fyrirtækjum mínum vinna þó að þeim hugmyndum sem ég lagði upp með þegar ég sagði upp vinnunni.

Ef það eru einhver skilaboð sem mig langar að senda aftur norður í Skagafjörð þá væru það þau að ef þú ert með hugmynd sem þig langar að vinna að eða löngun til að vinna fyrir sjálfan þig; láttu verða af því - og byrjaðu núna. Það er ekkert víst að það klikki. Það er þó tvennt sem gott er að vera undirbúinn fyrir í upphafi. Annars vegar að þú gætir endað allt annarstaðar en þú lagðir upp með og að þetta gerist alls ekki strax. Ekkert frekar hjá okkur en Walt Disney.

“The best time to plant a tree was 20 years ago. The second best time is now.” – Chinese Proverb

Ég skora á Vilhjálm Árnason að skrifa næsta pistil. 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir