Atvinnuveganefnd skoðar lækkun veiðigjalda

Halla Signý Kristjánsdóttir, þingmaður Framsóknarflokksins, hefur sent formanni og varaformanni atvinnuveganefndar, Lilju Rafneyju Magnúsdóttur og Ingu Sæland erindi þar sem hún óskar eftir því að boðað verði til sérstaks fundar í nefndinni til að ræða stöðu minni útgerða og áhrif hækkunar veiðigjalda á rekstrarstöðu þeirra.

Halla Signý segir forsöguna þá að veiðigjöldin hafi margfaldast á sl. ári og nú þegar hafa einhver útgerðarfyrirtæki gefist upp og nokkur eru að hugsa sér til hreyfings.

„Sú reikniregla sem viðgengst kemur illa niður í því árferði sem núna er hjá bolfiskfyrirtækjum. Reiknireglan miðast við afkomu sjávarútvegsfyrirtækja fyrir tveimur árum og veiðigjöld þessa fiskveiðiárs er því tengd afkomu greinarinnar árið 2015 sem var verulega betri en afkoma sl. árs. Því veldur styrking krónunnar og lækkun á hráefnisverði,“ skrifar Halla Signý.

Hún bendir á að leita þurfi skýringa hvað veldur því að hlutur bolfiskgeirans í veiðigjöldum er miklu hærri en hlutur uppsjávargeirans þar sem núverandi skipting er að uppsjávargeirinn greiðir 17% en bolfisksgeirinn 83%.

„Lítil og meðalstór fyrirtæki í bolfisksgeiranum eiga mörg hver í verulegum erfiðleikum og ekki er útséð hve mörgum tekst að klára árið. Þarna erum við ekki einungis að tala um að einstökum byggðalögum blæði, heldur fjórðungum. Þar eru einungis lítil og meðalstór sjávarútvegsfyrirtæki. Ennþá er það svo að sjávarútvegurinn er aðalatvinnuvegur fjórðungsins. Það er því mikið í húfi. Okkur tekst ekki á skömmum tíma að byggja upp eða styrkja aðrar atvinnugreinar til að mæta þeim skelli sem gæti orðið ef þessi stoð væri skorin niður. Samþjöppun fyrirtækja? Viljum við að eitt stórt fyrirtæki sem hefur enga tengingu við samfélagið reki allan sjávarútveg?

Þetta er því einnig byggðamál á stóru svæði. Litróf sjávarútvegsfyrirtækja í landinu má ekki verða einsleitt. Það er öllum byggðarlögum hollt að rekin séu sterk og fjölbreytt fyrirtæki sem fylgja hjarta samfélagsins,“ segir Halla Signý sem óskar eftir því að fundurinn verði haldinn sem fyrst og að á hann komi m.a. fulltrúar eftirtalinna aðila: sjávarútvegsráðuneytisins, landshlutasamtaka sveitarfélaga á landsbyggðinni, landssamtök smábátasjómanna, fulltrúar lítilli sjávarútvegsfyrirtækja víðsvegar af landinu o.fl. aðilar sem taldir eru mikilvægir til að fá viðhorf og sjónarmið sem þetta mál snerta.

Lilja Rafney segir að atvinnuveganefnd hafi undanfarnar vikur fengið á sinn fund hagsmunaðila til þess að ræða veiðigjöldin s.s. Veiðigjaldanefnd, SFS og LS og mun halda áfram umfjöllun um veiðigjöld og fá til sín fleiri aðila sem málið varðar.

„Nú er í gangi vinna í Atvinnuvegaráðuneytinu við endurskoðun veiðigjalda og brýnt er að tekið verði til ítarlegrar skoðunar þá gagnrýni sem komið hefur fram á hækkun veiðigjalda  og að veiðigjöldin endurspegli sem best afkomu ólíkra útgerðarflokka,“ segir Lilja Rafney sem tekur undir þá ósk að atvinnuveganefnd haldi áfram umfjöllun sinni um veiðigjöld.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir