Bananakaka Georgs og Laugardagspítsan okkar

„Við þökkum góðvinum okkar Valdísi og Baldri fyrir áskorunina. Georg er með mjólkuróþol svo uppskriftirnar taka mið af því. Ég er agalegur slumpari og það er því talsverð áskorun að skrifa niður þessar uppskriftir þar sem ég kann þær orðið utan að og nota því nokkurs konar „bakara-auga“ við baksturinn,“ segir Sigurlaug Ingimundardóttir frá Skagaströnd en hún og Georg sonur hennar voru matgæðingar vikunnar í 40. tbl. Feykis árið 2015.

Morgunverður
Dásamleg morgunverðarkaka

4 dl hafrar
1 tsk vínsteinslyftiduft
smá fínmalað Himalaya salt
kanill eftir smekk (við setjum MIKIÐ) 

Aðferð:
Við mæðginin vorum orðin leið á hafragraut á morgnana svo ég fann uppskrift af ofnbökuðum hafragraut. Georg er með dæmigerða einhverfu og það hvarflaði ekki að honum að smakka enn einn hafragrautinn en mamman breytti bara nafninu aðeins.

Þetta setjum við í 26 sm kringlótt sílikon form (Tupperware frá Jobbu í Fagranesi - auðvitað!) og hrærum vel saman með gaffli. Í blandara setjum við svo:

1 egg
1 vel þroskaðan banana
3 dl af mjólk, hvaða mjólk sem er en við notum oftast möndlumjólk
1 tsk Pure Vanilla extract 

Mixum þetta vel saman og hellum svo yfir formið, hrærum nokkra hringi með gaffli. Síðan söxum við 1-2 banana í sneiðar og röðum þétt yfir grautinn. Síðast kanilsykur (við notum sukrin) yfir alla banana-sneiðarnar og bökum í 175°C heitum ofni í um hálftíma. Þessi er líka góð köld svo við skerum afganginn í sneiðar og frystum; gott að grípa með í nesti.

Hressing
Bananakaka Georgs

1½ dl gróft spelt
1 dl fínt spelt
1 tsk. vínsteinslyftiduft
¼ tsk. matarsódi
¼ tsk. fínmalað himalaya salt
1 tsk. kanill (og stundum gott betur)
1 dl púðursykur (við notum sukrin gold)
 

Setjum þurrefnin í skál og hrærum vel saman. Í matvinnsluvél setjum við:

1 kúffullan bolla af soðnu blómkáli
4-5 vel þroskaða banana
2 stór egg
½ dl kókosolíu
1 tsk.Pure Vanilla extract 

Aðferð:
Mixum þetta vel og bætum síðan þurrefnunum út og mixum aðeins betur. Deiginu hellt í kringlótt 26 cm sílikon form (Tupperware frá Jobbu í Fagranesi - auðvitað!) og síðast grófsaxa ég eina plötu af 80% suðusúkkulaði, strái yfir deigið og hræri nokkra hringi með gaffli. Bökum svo í 175°C heitum ofni í 30 - 35 mín. 

Kvöldverður
Laugardagspítsan okkar

250 g gróft spelt
3 tsk vín­steins­lyfti­duft
½ tsk. fínmalað himalaya ­salt
1 tsk. heitt pizzakrydd frá Pottagöldrum
2 msk. ólífu­olía
140 ml heitt vatn 

Aðferð:
Ég byrja alltaf á því að raða einu bréfi af beikoni á smjörpappír og baka í ofni á meðan við gerum botninn. Við fletjum deigið eins þunnt út og við getum þangað til botninn nær nokkurn veginn horn í horn á venjulegri ofnplötu. Ég bretti síðan örlítið upp á alla kanta ... og forbaka botninn í um 5 mínútur. Við notum Hunt´s pizzasósu og Georgs megin er þétt lag af sveppum og síðan stráum við þunnt sneiddu putta-pepperoni og beikoni yfir. Ég klippi hverja beikonsneið niður í 5-6 bita með skærum. Mín megin fer alls konar grænmeti, misjafnt hverju sinni og fer aðallega eftir úrvali ísskápsins og auðvitað beikon.

Síðan kemur galdurinn okkar - mér fannst alveg ómögulegt að hafa engan ost á pizzunni en einhver benti okkur á að hræra egg og hella yfir áður en pizzan fer í ofninn. Ég nota yfirleitt 3 egg, hristi vel í sósuhristara og helli yfir alla pizzuna þegar áleggið er komið á, uppbrettu brúnirnar passa að ekkert leki út fyrir og síðan bökum við pizzuna í ofni þangað til botninn er fullbakaður og eggin hafa hlaupið og mynda því gult lag yfir pizzunni, sem minnir talsvert á ost í útliti og heldur álegginu á sínum stað þegar við borðum pizzuna.

Nokkrar pítsusneiðar fara svo á lítinn hliðardisk, plast yfir og inn í ísskáp því það besta sem Georg fær í morgunmat er köld pítsa. Það er því hefð hjá okkur að baka pítsu kvöldið fyrir afmælisdaginn hans. 

Verði ykkur að góðu!

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir