Belgísk kvikmynd sýnd á Hofsósi

Þorbjörn Steingrímsson í Sandfelli fer með hlutverk í myndinni.
Þorbjörn Steingrímsson í Sandfelli fer með hlutverk í myndinni.

Fyrir rúmu ári síðan komu hingað til Íslands, meðal annars í Skagafjörð, tveir ungir kvikmyndagerðarmenn frá Belgíu, þeir Clyde Gates og Gabriel Sanson. Tilgangur fararinnar var að taka upp kvikmynd en hugmyndin að handritinu kviknaði þegar þeir heyrðu söguna af Fjalla-Eyvindi. Í myndinni segir frá samfélagi þar sem miklar hörmungar hafa átt sér stað. Ung kona virðist haldin undarlegum sjúkdómi sem deyðir öll dýr og plöntur sem hún kemst í snertingu við. Aðrir íbúar samfélagsins óttast um öryggi sitt og gera hana útlæga en ungur fjárhirðir býðst til að fylgja henni aftur til síns heima. Sagan fjallar um ferðalag þeirra þangað og sambandið sem myndast milli þeirra.

Þeir félagar, Clyde og Gabriel, leituðu til heimamanna á Hofsósi og nágrenni og fengu þá til að taka að sér hlutverk í myndinni, auk þess sem þeir óskuðu eftir nokkrum kindum og einni kú í hlutverk.  Tvímenningarnir eru afskaplega þakklátir þeim sem lögðu þeim lið og segja undirtektirnar hafa verið ótrúlega góðar. Og nú eru þeir væntanlegir aftur í Skagafjörðinn og ætla að sýna stuttmynd sína, sem hlotið hefur nafnið Himinn opinn, í Höfðaborg á Hofsósi á fimmtudagskvöldið kemur, 28. september kl 21:00. „Þangað eru allir hjartanlega velkomnir og að sjálfsögðu er frítt inn,“ segja þeir félagarnir. 

Myndin var sýnd á kvikmyndahátíðinni í Feneyjum í byrjun september og  verður hún einnig á dagskrá RIFF, Alþjóðlegu kvikmyndahátíðarinnar í Reykjavík, sem hefst nú í lok mánaðarins. Fyrir þá sem ekki komast í Höfðaborg er hægt að skella sér í bíó í Reykjavík en upplýsingar er að finna á https://riff.is/movies/himinn-opinn/.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir