Besta skólaferðin að sjá Ísland vinna Holland 2-0 --- Liðið mitt Hannes Ingi Másson

Hannes Ingi Másson, körfuboltakappi í Tindastól, kemur frá Hvammstanga en er búsettur á Sauðárkróki. Auk þess að æfa og leika með Stólunum stundar hann nám í Fjölbrautaskóla Norðurlands vestra. Varnarjaxlinn, Viðar Ágústsson, skoraði í vor á samherja sinn að svara spurningum í Liðinu mínu og Hannes skorast að sjálfsögðu ekki undan þeirri áskorun.

 

Hvert er uppáhaldsliðið þitt í enska boltanum og af hverju? -Það er að sjálfsögðu Liverpool, ástæðan fyrir því er að æskuvinirnir héldu með liðinu og ég smitaðist.

Hvernig spáir þú gengi liðsins á tímabilinu? -Tímabilið byrjaði ekki alltof vel hjá mínum mönnum, vörn og markvarsla hafa svolítið verið að stríða okkur en ég vonast eftir að lenda í top 4 og ná aftur meistaradeildarsæti.

Ertu sáttur við stöðu liðsins í dag? -Nei, ekki nógu sáttur eins og er. Ég nefndi áðan að vörnin og markvarslan hafa ekki verið nógu góð. Síðan veit ég ekki alveg með nýja leikmanninn okkar hann Alex Oxlade-Chamberlain en við sjáum hvað rætist úr honum.

Hefur þú einhvern tímann lent í deilum vegna aðdáunar þinnar á umræddu liði? -Ekkert sem að ég man eftir svona sérstaklega, en oft þegar að maður nefnir það við fólk að maður haldi með Liverpool þá fara menn að röfla um það hvað það er langt síðan að liðið vann titil, en það fer bara inn um annað eyrað og út um hitt.

Hver er uppáhaldsleikmaðurinn fyrr og síðar? -Það mun klárlega vera Fernando Torres. Hann var einn af mínum uppáhalds og átti góða tíma hjá Liverpool.

Hefur þú farið á leik með liðinu þínu? -Nei, því miður en það styttist vonandi.

Áttu einhvern hlut sem tengist liðinu? -Maður á nokkrar treyjur, derhúfur, trefla og gömul plaköt.

Hvernig gengur að ala aðra fjölskyldumeðlimi upp í stuðningi við liðið? -Það hefur gengið ágætlega. Náði að koma litlu systir minni á vagninn með mér og síðan er mamma líka Púllari en pabbi náði að ala eldri systur mína á Man United.

Hefur þú einhvern tímann skipt um uppáhalds félag? -Nei, alltaf haldið með Liverpool en hef verið að fíflast aðeins í strákunum upp á síðkastið að fara að skipta um lið en það er nú bara smá spaug.

Uppáhalds málsháttur? -Ef að ég vitna nú aðeins í Georg Bjarnfreðarson úr Dagvaktinni þá sagði hann einu sinni; Ferð hratt og sérð fátt, ferð hægt og margt sér.

Einhver góð saga úr boltanum? -Þegar að ég fór á Ísland – Holland með fótboltaáfanganum mínum í FNV. Leikurinn endaði 2-0 fyrir Íslandi og Gylfi skoraði bæði mörkin. Þetta var fyrsti alvöru leikurinn sem að ég fór á með landsliðinu eftir að þeir urðu virkilega góðir eins og þeir eru í dag. Sennilega með betri skólaferðum sem að ég hef farið í.

Einhver góður hrekkur sem þú hefur framkvæmt eða orðið fyrir? -Fyrir nokkrum árum, þegar ég bjó á heimavistinni, ákváðu nokkrir strákar að taka bílinn minn og fela hann fyrir mér og bjuggu til ratleik fyrir mig til að finna hann. Ég hló að þessu í byrjun en eftir svona tvo klukkutíma án nokkurs árangurs var þetta orðið nokkuð þreytt. Þeir þrjóskuðust þá loksins til að segja mér hvar bílinn væri og var þá búið að leggja honum fyrir utan hús í Lerkihlíðinni. Ég ætlaði þá að fara inn í bílinn en það óheppna var að þeir höfðu komið lyklinum fyrir í hanskahólfinu og fyrir slysni læst bílnum. Þannig að ég þurfti að fara að vesenast í því að opna bílinn, en það tókst nú að opna hann á endanum. Hrekkur sem misheppnaðist aðeins en ég hlæ að honum núna í dag.

Spurning frá Viðari Ágústsyni: – Eiga Liverpool heima í meistaradeildinni?

Svar... Að sjálfsögðu eiga þeir heima þar. Sjáum það öll bara þegar að þeir lyfta bikarnum í maí.

Hvern myndir þú vilja sjá svara þessum spurningum? -Björgvin Hafþór Ríkarðsson

Hvaða spurningu viltu lauma að viðkomandi? -Hvar endar þessi endalausa saga með Diego Costa?

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir