Blanda ekki lengur varnarlína

Hér sést hvernig varnarhólfin skiptast áður en Skaga- og Húnahólf sameinuðust. Mynd: mast.is
Hér sést hvernig varnarhólfin skiptast áður en Skaga- og Húnahólf sameinuðust. Mynd: mast.is

Atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytið hefur gefið út að Blanda sé ekki lengur varnarlína fyrir sauðfjársjúkdóma og þar með sameinast Skaga- og Húnahólf. Þetta hefur þau áhrif að bændur og fjallskilastjórar eru ekki lengur lögbrjótar flytji þeir sauðfé heim til sín úr réttum eftir að það hefur farið yfir varnalínuna en sagt var frá því í haust að Matvælastofnun hefði tekið ákvörðun um að á fjórða hundrað fjár sem fór yfir sjúkdómavarnarlínu Blöndu í fyrrasumar yrði slátrað sl. haust, sem aftur var fallið frá skömmu síðar.

Varnir við Blöndu hafa löngum verið litlar og eftir að áin var virkjuð kemur fyrir að hún er þurr á stórum kafla og því greiðfært fyrir fé þar yfir. Að sögn Jóns Kolbeins Jónssonar, héraðsdýralæknis, hefur það leitt til þess að sauðfé hefur fjölgað frá ári til árs sem fer yfir Blöndu og hefðu átt að vera skilgreindir sem línubrjótar og þeim slátrað en fjallskilastjórar hafa ekki sinnt þeirri skyldu sinni í fjölda mörg ár. Segir hann að Matvælastofnun hafi bent á að stofnunin vilji viðhalda Blöndu sem varnarlínu en til þess þurfi fjármagn frá stjórnvöldum til þess að gera varnarlínuna helda.

„Nú er svo komið að búið er að sameina Skagahólf og Húnahólf sem leiðir til þess að þetta er eitt af stærstu varnarhólfum landsins. Þetta er mikill ókostur fyrir Húnahólfið þar sem það hefði átt kost á því að verða skilgreint sem hreint hólf fyrir riðu eftir níu ár ef ekkert riðutilfelli hefði komið upp á þeim tíma. Einnig er þetta ókostur fyrir útbreiðslu á öðrum sjúkdómum ef þeir koma upp. Það er hins vegar kostur að það sé búið að taka ákvörðun um hvort eigi að viðhalda Blöndu sem varnarlínu og hafa hana fjárhelda eða að leggja hana niður sem varnarlínu,“ segir Jón Kolbeinn.

Hann telur ekki búandi við það ástand að hafa hripleka varnarlínu með tilheyrandi óánægju bænda og eftirlitsaðila. 

Tengdar fréttir:

Öllu fé sem fór yfir Blöndu í sumar skal slátrað 

Ekki þarf að slátra því fé sem fór yfir Blöndu 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir