Bleikjuterrína, engiferfyllt önd og páskaterta

Böðvar og Heiða. Mynd úr einkasafni.
Böðvar og Heiða. Mynd úr einkasafni.

„Það er nú ekki komin hefð í matargerð hjá okkur hjónaleysunum (nema þá kannski grilluð samloka með osti) enda einungis þrír mánuðir síðan við fórum að búa sjálf. Við erum því ekki enn búin að finna okkar sameiginlega uppáhaldsmat en við ætlum að gefa lesendum færi á að eiga jafn girnilega páska og við ætlum að eiga. Hvern þessara rétta hefur betri helmingurinn einungis gert einu sinni á ævinni, með margra ára milli bili, en með miklum ágætum þó,“ sagði Heiða Haralds. í 10. tbl Feykis 2016 en hún og Böðvar Friðriksson voru þá matgæðingar vikunnar og buðu upp á uppskriftir að herlegum veisluréttum fyrir páskamatseðilinn en nú styttist í að fólk fari að huga að honum.

„Í forrétt verður bleikjuterrína með blaðlauks sósu, í aðalrétt engiferfyllt önd með appelsínusósu og bökuðum sætum kartöflum. Þar sem að allir verða svo sprengsaddir eftir þennan hádegisverð þá þýðir ekkert að bjóða uppá desert fyrr en í miðdagskaffinu og þá verður hinni klassísku páskatertu skellt á borðið.“

Forréttur
Bleikjuterrína með blaðlauks sósu

200 g soðin bleikjuflök, hreinsuð
200 g rækjur
200 g mjúkt smjör
1 msk ferskur graslaukur, saxaður
2 tsk hvítvínsedik

Aðferð:
Kreistið vökvann af graslauknum og maukið í matvinnsluvél ásamt hinu (ath. saxið graslaukinn áður en hann er settur í matvinnsluvélina, hann saxast ekki nóg í hrærunni) kryddið með salti og pipar. Klæðið skál að innan með filmu, hellið blöndunni í skálina og látið standa í kæli yfir nótt. 
Hvolfið úr skálinni á disk, takið plastið af og skerið í sex hluta. Setjið á disk ásamt sósunni og fersku skornu grænmeti að eigin vild (t.d. salat og papriku) og skreytið með steinselju og sítrónu.

Blaðlauks sósa:
50 g blaðlaukur
1 dl majónes
1 eggjarauða
1 dl sojaolía
1 msk hvítvíns edik
½ dl vatn
1 tsk estragon
salt og pipar

Aðferð:
Saxið blaðlaukinn fínt og skolið. Setjið í matvinnsluvél ásamt majónesi, eggjarauðu estragoni og ediki, maukið. Setjið síðan á hægan snúning og bætið olíunni hægt út í. Kryddið með salti, pipar og sykri.

Aðalréttur
Engiferfyllt önd með appelsínusósu

1 önd
1 appelsínusneið
2 tsk salt
½ tsk svartur pipar

Fylling:
100 g sveppir
80 g laukur
1½ epli
10 sveskjur steinlausar
1 dl brauðrasp 
½-1 dl rjómi eða mjólk
1½ tsk engifer, ferskt (rótin rifin á fínu rifjárni)
1 tsk salt
1 tsk smjör

Sósa:
6 dl soð og vatn
1 tsk kjúklingakraftur
½ tsk kjötkraftur
3 msk hveiti
2½ dl rjómi eða mjólk 
½-1 tsk engifer, ferskt (aftur, fínt rifjárn)
1-2 msk appelsínumarmelaði
salt
pipar
1-2 tsk koníak eða madeira

Aðferð:
Þerrið fuglinn og takið appelsínusneið og nuddið fuglinn innan sem utan. Blandið saman salti og pipar og nuddið fuglinn með blöndunni að innan og utan.
Hreinsið sveppi, lauk og epli og maukið ásamt sveskjum í matvinnsluvél. Blandið mauki, raspi, rjóma/mjólk og kryddi í brætt smjör á pönnu og látið krauma í 2-3 mín. Setjið fyllinguna inn í fuglinn og lokið með kjötprjóni. Steikið í ofni við 160°C gráður í 1½ klukkustund. Hellið vatni í skúffuna/ofnpottinn þegar hálftími er eftir af steikingartímanum. Steikingartíminn miðast við þyngd fuglsins og er það 1 klst. og 15 mín. á hvert kg og settur inn í 175°C heitan ofn.

Sósan:
Sigtið soð og fleytið fitunni að mestu ofan af. Mælið soðið í pott og bætið vatni út í þannig að verði 6 dl. Stráið hveiti yfir og bíðið þar til það botnfellur. Hitið. Setjið krydd og marmelaði saman við. Hrærið vel í á meðan suðan kemur upp. Bætið rjóma út í og sjóðið við vægan hita í 5-10 mín. Setjið koníak eða madeira út í (má sleppa) og kryddið ef þarf.
Við ætlum að hafa sætar franskar kartöflur en þá sker maður sætarkartöflur í ca. fingursvera strimla og bakar í ofnskúffu í 45 mín. við ca 200 °C

Eftirréttur
Páskaterta

2 dl mjólk eða kaffi rjómi
1½ dl sykur
4 msk kakó

Hitað að suðu og hrærið í á meðan það kólnar.

100 g smjör
1 dl sykur
1 msk vanillusykur
2 stk egg
3½ dl hveiti
2 tsk lyftiduft

Aðferð:
Smjör, sykur og vanillusykur hrært saman og eggjunum bætt útí einu í einu. Kakóblöndunni og þurrefnum hellt út í til skiptis. Sett í djúpt hringlaga form eða 2-3 grynnri form (ca. 22 sm) bakað í 15 mín. við 150°C og svo er hitinn lækkaður smátt og smátt næstu 30 mín. þangað til þú ert kominn niður í 100°C. Þessi bökunartími miðast við 1 djúpt form. Ef vel tekst til þá á maður að geta skorið kökuna í þrjá botna.

Skreyting:
3-4 dl rjómi
1 pakki Royal vanillubúðingur
2 dl mjólk
½ ds. ferskjur/apríkósur
ljóst súkkulaði kurl

Aðferð:
Stífþeytið rjómann með ögn af sykri. Hrærið búðing saman við mjólkina og blandið saman við helminginn af rjómanum. Ferskjur/apríkósur skornar smátt (ekki skera allar skiljið eitthvað eftir í skraut) og blandað saman við. Þetta er fyllingin á milli botnana. Tertan er svo skreytt með því sem eftir er af rjómanum, ávöxtunum og súkkulaðikurlinu.

 

Verði ykkur að góðu.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir