Blóma- og gjafabúðin skiptir um eigendur

Hrafnhildur, nýr eigandi blóma- og gjafabúðarinnar. Mynd FE
Hrafnhildur, nýr eigandi blóma- og gjafabúðarinnar. Mynd FE

Um síðustu mánaðamót urðu eigendaskipti á Blóma- og gjafabúðinni á Sauðárkróki þegar Hrafnhildur Skaptadóttir tók við rekstrinum af Brynhildi Sigtryggsdóttur, eða Binný í Blómabúðinni,  sem hafði rekið búðina um árabil. Eins og kunnugir vita er Hrafnhildur þó enginn nýgræðingur í blómaversluninni þar sem hún hefur starfað í búðinni hjá Binný undanfarin níu ár.

Þegar Hrafnhildur er spurð um aðdraganda þess að hún keypti reksturinn af Binný segir hún að hann sé í raun nokkuð langur. Binný hafði fyrir löngu ákveðið að hætta með búðina þegar hún yrði sextug og það hafi í raun oft komið til tals að hún tæki við þó ákvörðunin hafi ekki legið fyrir. Síðasta eitt og hálfa árið hefur Hrafnhildur svo fylgst náið með rekstrinum og og því fengið góðan undirbúning til viðbótar við þá reynslu sem hún býr að eftir að hafa starfað í búðinni árum saman.

Hrafnhildur, sem var varla skriðin upp úr grunnskóla þegar hún byrjaði að vinna í blómabúð, segir áhugann hafa verið fyrir hendi frá blautu barnsbeini. „Ég beið eftir því á vorin að blómin spryttu í garðinum hjá mömmu svo ég gæti klippt þau og gekk svo í hús í götunni til að selja, bisnessmanneskja fram í fingurgóma.“ Gróðurhús mömmu hennar varð blómabúð Hrafnhildar og svo átti hún heilu bækurnar með þurrkuðum blómum. Hún segist líka alltaf hafa haft mjög gaman af alls kyns föndri og handavinnu, þó ekki prjóni og hekli, og sé mjög „aktív“ í höndunum.

Aðspurð um hvort viðskiptavinir megi búast við einhverjum breytingum á búðinni segir Hrafnhildur að auðvitað fylgi nýjar áherslur með nýju fólki en þó séu engar rótækar breytingar fyrirhugaðar. „Mig langar að auka við vöruúrvalið og koma kannski með eitthvað nýtt sem ekki fæst í bænum. Svo gæti verið að búðin skipti um útlit að einhverju leyti. En það er öruggt að búðin skiptir ekki um nafn,“ segir Hrafnhildur og bætir því við að Blóma- og gjafabúðin verði 35 ára á þessu ári.

Rekstur blómabúðar á svona litlu svæði er mjög sveiflukenndur og oft koma dauðir tímar en svo miklir álagstoppar inn á milli. Hrafnhildur segist ekki ætla að ráða til sín fasta manneskju, búðin beri það varla, heldur séu móðir hennar, systur og fleiri fúsar til aðstoðar þegar þörf krefur.

Meðan blaðamaður staldrar við hringir síminn og auðheyrt er að þjónustan við viðskiptavininn getur orðið mjög persónuleg. „Já, hún skiptir miklu máli,“ segir Hrafnhildur, „þú hittir fólk í allavega ástandi, bæði gleði og sorg. Maður getur lent í því að þurfa að fara inn á heimili þar sem erfiðir atburðir hafa átt sér stað og líka þangað sem fólk er í hæstu hæðum með nýbakað barn. Fólkið sem kemur í búðina getur verið í alls konar ástandi. Stundum sendir fólk blóm en treystir sér ekki strax til aðstandenda þannig að blómabúðin verður eins konar fulltrúi. Þetta er partur af starfinu og mjög þroskandi að takast á við, horfast á við lífið eins og það er í raun og veru,“ segir Hrafnhildur að lokum.

 

 

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir