Bókarkynning á bókasafninu á Hvammstanga

Föstudaginn 20. október kl. 17:00 verður haldin bókarkynning á Bókasafni Húnaþings vestra þar sem Vilhelm Vilhelmsson, sagnfræðingur á Hvammstanga, kynnir nýútkomna bók sína, Sjálfstætt fólk: Vistarband og íslenskt samfélag á 19. öld. Boðið verður upp á léttar veitingar og bókin verður til sölu á sérstölum kjörum.

Bókin fjallar um vistarbandið sem var skylda búlausra til að ráða sig í ársvistir hjá bændum og lúta húsaga þeirra. Það var ein af grunnstoðum samfélagsins á 19. öld og setti mark sitt á daglegt líf alþýðu og hefur verið líkt við ánauð. En var það í raun svo? Voru vinnuhjú þrælar undir hæl húsbænda sinna? Eða voru þau agalaus og óhlýðin líkt og tíðar umkvartanir ráðamanna gáfu til kynna?

Í bókinni er varpað ljósi á togstreitu á milli undirsáta og yfirboðara í gamla sveitasamfélaginu. Einblínt er á löngun vinnufólks til að ráða eigin högum, möguleikum þess til að spyrna við valdboði, andæfa hlutskipti sínu og öðlast sjálfsvirðingu og reisn.

Félagsgerð hins gamla íslenska sveitasamfélags er sett í sögulegt samhengi atvinnuhátta og félagsgerðar á Norðurlöndum fyrir tíma iðnvæðingar. Hlutverk vistarbandsins á umbrotaskeiði Íslandssögunnar er endurskoðað og sögð saga alþýðunnar frá sjónarhorni hennar sjálfrar fremur en valdhafa.

Bókin er ríkulega myndskreitt með yfir 90 litmyndum og kortum.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir