Brautskráning nemenda frá Háskólanum á Hólum

Brautskráðir nemendur frá Háskólanum á Hólum ásamt deildarstjórum og rektor. Mynd: Holar.is.
Brautskráðir nemendur frá Háskólanum á Hólum ásamt deildarstjórum og rektor. Mynd: Holar.is.

Háskólinn á Hólum brautskráði nemendur sl. föstudag, 8. júní, við hátíðlega athöfn sem fram fór í Menningarhúsinu Miðgarði í Varmahlíð. Athöfnin var með hefðbundnu sniði, flutt voru ávörp og tónlistaratriði sem voru í höndum þeirra Dönu Ýrar Antonsdóttur og Daníels Andra Eggertssonar. 

Að loknu ávarpi rektors, Erlu Bjarkar Örnólfsdóttur, tóku deildarstjórar við og brautskráðu nemendur af sínum brautum. 

17 nemendur brautskráðust með BS-próf  í reiðmennsku og reiðkennslu. Viðurkenningu fyrir framúrskarandi námsárangur hlaut Caeli Elizabeth Peters Cavanagh.

Einn nemandi var brautskráður með diplómu í fiskeldisfræði en hefð er fyrir að Fiskeldis- og fiskalíffræðidield útskrifi nemendur sína að sumri til.

Ellefu nemendur brautskráðust með diplómu í viðburðastjórnun, 17 með BA-gráðu í ferðamálafræði og einn með MA-gráðu í sömu grein. Ingibjörg Elín Jónasdóttir hlaut viðurkenningu fyrir heildarnámsárangur í BA-námi og Alexandra Eir Andrésdóttir fyrir góðan árangur í diplómunámi.  

Dagskránni lauk með því að Caeli Cavanagh, BS í reiðmennsku og reiðkennslu, flutti ræðu fyrir hönd nýbrautskráðra.

Að athöfn lokinni bauð skólinn til kaffisamsætis í umsjón Ferðaþjónustunnar á Hólum. 

Nánar er greint frá athöfninni á heimasíðu Háskólans á Hólum.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir