Breytingar framundan í stjórnun Blönduósbæjar

Frá Blönduósi. Mynd: Northwest.is
Frá Blönduósi. Mynd: Northwest.is

Um næstu mánaðamót verða breytingar á stjórnun Blönduósbæjar þegar Arnar Þór Sævarsson lætur af störfum eftir ellefu ár í starfi sveitarstjóra. Arnar tók við starfinu í október árið 2007 af Fanneyju Friðriksdóttur sem lét þá af störfum. Valgarður Hilmarsson mun taka við starfi sveitarstjóra þann 1. apríl nk.

Á fundi sveitarstjórnar Blönduósbæjar þann 20. mars  var samþykkt að Anna Margrét Jónsdóttir verði forseti bæjarstjórnar í stað Valgarðs og að Zophanías Ari Lárusson verði fyrsti varaforseti sveitarstjórnar. Var það samþykkt án mótatkvæða. Einnig var ráðningarsamningur við nýjan sveitarstjóra kynntur og samþykktur með smávægilegum breytingum með þremur atkvæðum en tveir sátu hjá.

Fulltrúar J-listans, þau Oddný María Gunnarsdóttir og Hörður Ríkharðsson, lögðu fram svohljóðandi bókun:  "J-listinn telur ástæðulaust að ráða sveitarstjóra. Starfsmenn sveitarfélagsins eru fullfær að annast þau störf sem annast þarf fram yfir kosningar".

Í lok fundar voru Arnari Þór þökkuð vel unnin störf í þágu sveitarfélagsins.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir