Dauðafæri fyrir flokkinn að styrkjast

Framsóknarfélögin í Skagafirði héldu opinn fund á Sauðárkróki í gær þar sem alþingismennirnir og fyrrum ráðherrarnir, Gunnar Bragi Sveinsson og Lilja Alfreðsdóttir, komu sem gestir. Að sögn Gunnars Braga var farið yfir stöðuna í pólitíkinni og hvaða tækifæri væru sjáanleg í stöðunni. Honum finnst það vitlaust að standa í erjum núna þegar það sé dauðafæri fyrir flokkinn að styrkjast.

Að sögn Gunnars Braga var vel mætt, u.þ.b. 45 manns sem sátu fundinn. Töluvert var rætt um að Framsóknarflokkurinn verði að komma heill og heilsteyptur fram í kosningunum og voru það skilaboðin á fundinum. „En menn spurðu eðlilega einnig um landbúnaðarmál og byggðamál svo umræðurnar voru alveg ágætar. Ræddum líka bankamál, fjár-, og efnahagsmál sem Lilja er hvað sterkust í.

Aðspurður hvort sú barátta sem á sér stað innan Framsóknarflokksins, þar sem tvær fylkingar berjast um völdin, armur Sigurðar Inga annars vegar og Sigmundar Davíðs hins vegar hafi truflandi áhrif í aðdraganda kosninganna, segir Gunnar svo vera að einhverju leyti.

„Það er vitanlega þannig að það eru tvær fylkingar eins og þú nefnir. Það má kannski segja að það sé ein fylking enn sem vill að einhver þriðji aðili komi og taki við flokknum. Það er ósköp eðlilegt að fólk hugsi þannig. En því miður þá eru þessar fylkingar aðeins að takast á núna um framboðin sem eru framundan sem að mínu viti er mjög slæmt. það á vitanlega enginn neitt í pólitík en það er mjög skrítið að ætla að taka tvær til þrjár vikur í innanhússátök þegar kosningar eru eftir fimm vikur. Það er ekki gott fyrir flokk að hafa allan fókus á þessi læti og átök. Við sáum það nú bara fyrir ári síðan þegar þau átök urðu milli Sigurðar Inga og Sigmundar Davíðs. Það stórskaðaði flokkinn í kosningum. Við höfum um tíu til ellefu prósenta fylgi í könnunum nú og það mun ekki aukast ef við förum í blóðug slagsmál innbyrðis,“ segir Gunnar Bragi.

Nú er það þekkt að Gunnar Bragi tilheyrir armi Sigmundar Davíðs og viðurkennir hann að það hafi einhver áhrifa á stöðu hans innan flokksins sem oddvita Framsóknarmanna í Norðvesturkjördæmi. „Að sumu leyti. En það er stór og mjög góður hópur vina minna hér sem studdu Sigurð Inga en styðja mig að fullu áfram. Þeir eru ekkert að blanda þessu saman, enda er ekki óeðlilegt að menn hafi skiptar skoðanir á formönnum eða einhverju slíku. Það er bara eðlilegt og ég geri ekki athugasemd við að þeir styðji annan mann en ég. Svo spilar inn í þetta að kannski annars konar valdabarátta líka. Ég er mjög hreinskiptinn og sjálfstæður og segi hlutina beint og það er ekki alltaf vinsælt. Við skulum orða að þannig. En fólk veit þá hvar það hefur mig. Það er kannski ákveðinn galli en um leið kostur líka. En aðalmálið finnst mér það vitlaust að standa í erjum núna þegar það er dauðafæri fyrir flokkinn að styrkjast.“

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir