Drangey SK-2 við Gíbraltarsund

Drangeyjan er með nýstárlegt skrokklag og stórt og áberandi perustefni sem á að tryggja betri siglingareiginleika, meiri stöðugleika og aukna hagkvæmi. Mynd: Fisk.is
Drangeyjan er með nýstárlegt skrokklag og stórt og áberandi perustefni sem á að tryggja betri siglingareiginleika, meiri stöðugleika og aukna hagkvæmi. Mynd: Fisk.is

Hinn nýi togari FISK Seafood, Drangey SK-2, er á heimleið frá Tyrklandi þaðan sem skipið var smíðað og nálgast nú Gíbraltarsund. Heimförin hófst föstudaginn 4. ágúst en áætlaður siglingartími í Skagafjörðinn er um hálfur mánuður og því áætluð heimkoma í kringum 18. ágúst.

Um klukkan 2 í nótt sigldi Drangeyjan á rúmlega 10 hnúta hraða í átt að Gíbraltarsundi en handan þess bíður Atlantshafið og stefnan tekin norður til Íslands. Myndin sýnir för skipsins frá klukkan 18:00 í gær til kl. 2 í nótt innan um aragrúa annarra skipa. Mynd: Skjáskot af marinetraffic.com. Skipið var smíðað hjá Cemre skipasmíðastöðinni í Tyrklandi en skrifað var undir samning um smíði á skipinu þann 24. júlí 2014. Skipið var sjósett þann 22. apríl síðastliðinn og afhent formlega þann 26. júlí í Tyrklandi.

Á heimasíðu FISK Seafood segir að á Sjávarútvegssýningunni í Brussel þann 25. apríl síðastliðinn hafi verið skrifað undir samning við Skagann 3X um smíði á vinnslubúnaði á millidekkið á skipinu. Búnaðurinn er ofurkælibúnaður líkt og er um borð í Málmey SK-1.

„Skipið er tæknilega fullkomið og við hönnun var lögð áhersla á hagkvæmni í orkunýtingu. Drangey er 62,5 metra langt skip og 13,5 metra breitt. Skipið er með nýstárlegt skrokklag og stórt og áberandi perustefni sem á að tryggja betri siglingareiginleika, meiri stöðugleika og aukna hagkvæmi. Skipið er skráð 2081 brúttótonn, hefur 14 hnúta hámarks siglingarhraða og 40 tonna togkraft. Skipstjóri á skipinu er Snorri Snorrason.

Það eru rúm 44 ár síðan það kom síðast nýsmíðaður togari á Sauðárkrók. Það skip hét líka Drangey en bar einkennisstafina SK-1. Það skip kom í fjörðinn frá Japan þann 5. maí 1973. Drangey kemur til með að leysa Klakk SK-5 af hólmi en Klakkur er 40 ára gamalt skip,“ segir á fisk.is.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir