Eins og að setjast á skólabekk á hverjum degi

Jóhanna María Sigmundsdóttir, 7. þingmaður NV-kjördæmis og yngsti þingmaður sögunnar, er í opnuviðtali Feykis í þessari viku.
Jóhanna María Sigmundsdóttir, 7. þingmaður NV-kjördæmis og yngsti þingmaður sögunnar, er í opnuviðtali Feykis í þessari viku.

Jóhanna María Sigmundsdóttir er yngsti Alþingismaður Íslandssögunnar, en hún komst nokkuð óvænt inn á þing sem fjórði þingmaður Framsóknarflokksins í Norðvesturkjördæmi við kosningarnar 2013.

Sjálf segist Jóhanna María vera „bóndadóttir að vestan“ og þrátt að vera aðeins 21 árs gömul þegar hún tók þingsæti, hafði hún talsverða reynslu af félagsmálum og trúnaðarstörfum. Hún hefur nú ákveðið að gefa ekki kost á sér í kosningum í haust, heldur einbeita sér að námi við Háskólann á Bifröst og búskap stórfjölskyldunnar

„Ég var síðan að huga að frekara námi eftir að ég kláraði bændadeildina, þegar ég villtist í að sinna pólitíkinni meira,“ segir Jóhanna María, aðspurð um hvað kom til að hún fór í framboð fyrir Framsóknarflokkinn fyrir síðustu alþingiskosningar. „Ég fór í stjórnmálaskóla Framsóknarflokksins sem var haldinn í Dölunum og eftir þá helgi var skorað á mig af öðrum þátttakendum að gefa kost á mér, það var verið að leita að fólki í framboð. Ég lét til skarar skríða og fékk fjórða sæti á listanum.“

Jóhanna María segir kjörtímabilið búið að vera lærdómsríkt. „Að vera alþingismaður er eins og setjast á skólabekk á hverjum degi,“ segir hún og bætir því við að starfinu fylgi alls kyns málefnastörf, seta í þingnefndum og ýmsum undirnefndum og vinnuhópum og verkefni sem þarf að sinna. „Eftir að ég komst inn tók ég sæti í Norðurlandaráði og því fylgir að ferðast um Norðurlöndin og tala fyrir hönd Íslands. Einnig var ég í þingmannaráði Eystrasaltslandanna og fór á ráðstefnur sem haldnar eru þar árlega.“ Hún segir verkefnin afar fjölbreytt: „Maður er búinn að kynnast fólki, félögum, samtökum og atvinnugreinum, sem manni datt ekki í hug að væru til á Íslandi. Þetta hefur verið frábær reynsla,“ segir Jóhanna María m.a. í opnuviðtali Feykis í dag.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir