Ekkert mál að fá selfí með Guðna

Sigri, Lulla, Elfa og Kristín. Mynd af Facebook.
Sigri, Lulla, Elfa og Kristín. Mynd af Facebook.

Stelpurnar okkar stóðu sig afar vel á móti Frökkum á EM í fótbolta í Hollandi sl. þriðjudag þrátt fyrir tap. Eins og kunnugt er lék ítalski dómarinn stórt hlutverk með úrslit leiksins þegar hún dæmdi víti sem Frakkar skoruðu úr og hirtu þar með öll stigin. Íslensku stelpurnar voru vel studdar af áhorfendum úr stúkunni en þar á meðal voru Skagfirðingar sem létu vel í sér heyra.

Þær frænkur frá Geldingaholti, Sigurlaug Dóra Ingimundardóttir og Elfa Björk Sigurjónsdóttir, létu sig ekki vanta en með þeim voru börn þeirra, Kristín Björg og Sigri. Feykir hafði samband við Sigurlaugu eða Lullu, og forvitnaðist um veru þeirra í Hollandi.

 Hún segir að ferðin hafi verið ákveðin til að koma dóttur sinni á óvart en ferðin var fermingagjöf til Kristínar sem fermdist í vor. Þetta er fyrsta ferð þeirra erlendis á íþróttaviðburð fyrir utan að Lulla segist hafa farið á íþróttaviðburði þegar hún var aupair í Bandaríkjunum fyrir margt löngu. En nú er það að fanga stemninguna á EM í fótbolta.

„Stemningin var mjög góð á „fan“ svæðinu og svo var skrúðganga á leikvöllinn. Það var ótrúlega skemmtilegt að upplifa stemminguna á leiðinni á leiksvæðið og verða vitni að viðbrögðum íbúa þarna og öðrum sem voru að fylgjast með,“ segir Lulla en stemningin var ekki síðri á leiknum sjálfum. „Stemningin á leiknum var mjög góð. Ótrúlega flottur leikur hjá stelpunum og Ísland rústaði því hverjir eru bestir í áhorfendakeppninni.“ Lulla segir að fleiri leikir verði sóttir af þeim þar sem þau eigi miða á leiki Íslands gegn Sviss og Austurríki.

Athygli vakti að Guðni Th. Jóhannesson, forseti Íslands, var mitt á meðal áhorfenda og skemmti sér vel. Fengu einhverjir að taka mynd af sér með honum og því neitaði Lulla sér ekki um. „Það var ekkert mál að fà selfí með Guðna. Gaman að spjalla við hann. Fylgdi líka með að kíkja í kaffi à Bessastaði.“

Áfram Ísland!

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir