Mikilvægt er að íbúum á sambýlinu á Blönduósi verði gefinn kostur á að búa í eigin íbúð

Sambýlið á Blönduósi. Mynd: PF
Sambýlið á Blönduósi. Mynd: PF

Færðar hafa verið fréttir af því að vistmenn á sambýlinu á Blönduósi hafi verið beittir þvingun og nauðung af starfsfólki sambýlisins en réttindagæslumaður fatlaðra á Norðurlandi lét starfsmenn réttindavaktarinnar vita af ástandinu. Þetta kemur fram í úrskurði sérfræðiteymis velferðarráðuneytisins frá seinasta ári. Sveitarfélagið Skagafjörður tók við ábyrgð á þjónustu við fatlað fólk í Húnavatnssýslum í ársbyrjun 2016 og var það gert með samningi allra sjö sveitarfélaga á Norðurlandi vestra um sameiginlegt þjónustusvæði um þjónustu við fatlað fólk. 

Feykir hafði samband við Grétu Sjöfn Guðmundsdóttur framkvæmdastjóra málefna fatlaðs fólks á Norðurlandi vestra og forvitnaðist um málið.

Í hverju felst sú óréttmæta nauðung gegn vistmönnum sambýlisins, sem kom fram í fréttum Rúv í vikunni? 

Það er ekkert til sem heitir réttmæt eða óréttmæt nauðung samkvæmt skilningi laganna. Samkvæmt lögum um réttindagæslu fyrir fatlað fólk nr. 88/2011 er öll beiting nauðungar í samskiptum við fatlað fólk bönnuð nema veitt hafi verið undanþága á grundvelli 12. gr. sömu laga eða um neyðartilvik sé að ræða skv. 13.gr. Nauðung samkvæmt lögum er athöfn sem skerðir sjálfsákvörðunarrétt einstaklings og fer fram gegn vilja hans. Til nauðungar samkvæmt lögunum telst meðal annars:

a)         Líkamleg valdbeiting, til dæmis í því skyni að koma í veg fyrir að fatlaður einstaklingur skaði sjálfan sig eða aðra, eða valdi stórfelldu tjóni á eigum sínum eða annarra.

b)         Húsnæði sem tilheyrir fötluðum einstaklingi er læst.

c)         Fatlaður einstaklingur er læstur inni eða ferðafrelsi hans skert með öðrum hætti.

d)         Fatlaður einstaklingur er fluttur milli staða gegn vilja sínum.

e)         Aðgangur fatlaðs einstaklings að eigum sínum er takmarkaður eða þær fjarlægðar gegn vilja hans.

f)         Einstaklingur er þvingaður til athafna, svo sem til að taka lyf eða nota hjálpartæki.

g)         Valdi eða þvingun er beitt við athafnir daglegs lífs. 

 

Félags- og skólaþjónusta Austur-Húnavatnssýslu óskaði eftir rýni frá sérfræðiteymi um aðgerðir til að draga úr nauðung við fatlað fólk árið 2013. Var það gert á forsendum laga um réttindagæslu, m.a. vegna þess að húsnæði sambýlisins  er að öllu jöfnu læst í öryggisskyni, aðgangur einstaklinga að eigum sínum er takmarkaður, auk þess sem mögulega koma upp tilfelli þar sem þvingun gagnvart heimilismönnum er beitt við athafnir daglegs lífs. Er það m.a. gert vegna þess að  íbúar sambýlisins geta farið sjálfum sér að voða, tryggja þarf að þeir noti viðeigandi hjálpartæki og taki nauðsynleg lyf. Það er skylda þjónustuaðila að leita til sérfræðiteymis ef bregðast þarf við aðstæðum þannig að til greina komi að beita þurfi nauðung.

Í fréttinni er talað um úrræði varðandi húsnæði sambýlisins. Hvaða hlutir eru það sem þarf að bæta? 

Húsnæði sambýlisins á Blönduósi er í eigu Félags- og skólaþjónustu bs.  sem er í eigu sveitarfélaga í Austur-Húnavatnssýslu. Um er að ræða svokallað herbergjasambýli þar sem einkarými takmarkast við 19 m2 herbergi hvers íbúa, annað rými er sameiginlegt.  Samkvæmt gildandi stefnumörkun löggjafans í þessum málaflokki er gert ráð fyrir því að heimilisumgjörð fatlaðs fólks uppfylli viðmið um einkarými og búseta í herbergjasambýlum verði lögð niður í áföngum. Markmið sveitarfélaga á Norðurlandi vestra í búsetuþjónustu er að fatlað fólk eigi kost á að búa í  íbúðum með baðherbergi, eldhúsi, stofu og svefnherbergi, svipað og er hjá öðrum þjóðfélagsþegnum og tekið verði tillit til staðsetningar út frá íbúðarhverfum og hönnunar með tilliti til aðgengis. Mikilvægt er að íbúum á sambýlinu á Blönduósi verði gefinn kostur á að búa í eigin íbúð með eða án sameiginlegs rýmis. Sveitarfélagið í samstarfi við húseiganda er að meta hvaða kostir eru í stöðunni; breyta núverandi húsi og byggja við eða fara allt aðrar leiðir. Þar liggur allt undir.

 

Eru fleiri sambýli á vegum málefna fatlaðs fólks á Norðurlandi vestra sem falla undir það að beita óréttmætri nauðung?

Eins og áður segir er ekkert til sem heitir réttmæt eða óréttmæt nauðung í skilningi laganna. Það er skylda í þjónustu við fatlað fólk að leita til sérfræðiteymis ef þarf að bregðast við aðstæðum þannig að til greina komi að beita þurfi nauðung, óháð því hvar þjónustan er veitt.

 

Hvernig kemur það til að Svf. Skagafjörður hefur málefni fatlaðs fólks á Norðurlandi vestra á sínu borði?

Sveitarfélagið Skagafjörður tók við ábyrgð á þjónustu við fatlað fólk á Norðurlandi vestra í ársbyrjun 2016. Það var gert með samningi allra sjö sveitarfélaganna á Norðurlandi vestra um sameiginlegt þjónustusvæði um þjónustu við fatlað fólk. Frá árinu 2011 höfðu sveitarfélögin verið í samstarfi innan byggðasamlags um málefni fatlaðs fólks, ásamt Fjallabyggð og Dalvíkurbyggð, þar sem ábyrgð á þjónustunni var þó hjá hverju félagsþjónustusvæði fyrir sig.

 

Eitthvað sem þið viljið koma á framfæri?

Sveitarfélagið Skagafjörður tók sem fyrr segir við ábyrgð á þjónustu við íbúa sambýlisins á Blönduósi í upphafi árs 2016. Þær aðgerðir sem sveitarfélagið hefur gripið til síðan eru:

1.         Fundað var með réttindavakt Velferðarráðuneytisins og farið yfir áform sveitarfélagsins um aðgerðir til úrbóta.

2.         Ráðgjafi í málefnum fatlaðs fólks var ráðinn til þess að vera sveitarfélaginu innan handar við úrbætur.

3.         Fylgt var leiðbeiningum sérfræðiteymis Velferðarráðuneytisins um aðgerðir til að draga úr nauðung við fatlað fólk.

4.         Ráðinn var forstöðumaður með menntun í þroskaþjálfafræði.

5.         Stöðugildum starfsfólks við heimilið var fjölgað og vaktafyrirkomulagi breytt.

6.         Markvisst hefur verið unnið að því að miða þjónustuna betur að þörfum einstaklinganna ásamt því að veita sértæka ráðgjöf og stuðning til starfsmanna heimilisins.

7.         Komið var á samvinnu við Heilbrigðisstofnun Norðurlands varðandi heilsu og vellíðan íbúanna.

8.         Hafnar voru viðræður við húseiganda um breytingar á húsnæðinu sem miða að því að breyta því í sérbýli.

 

Engin tilfelli hafa komið upp þar sem kviknað hefur grunur um að starfsfólk misbeiti valdi sínu síðan Sveitarfélagið Skagafjörður tók við ábyrgð þjónustu á sambýlinu á Blönduósi. Starfsfólk sambýlisins vinnur heilshugar að ofangreindum úrbótum í samstarfi við sveitarfélagið.

Sveitarfélagið Skagafjörður leggur ríka áherslu á að vel sé staðið að allri þjónustu við íbúa sambýlisins á Blönduósi. Áfram verður markvisst unnið að úrbótum í þjónustu við íbúa og þeirri vinnu hraðað sem kostur er.

Sveitarfélagið Skagafjörður tekur undir áherslur félags- og jafnréttismálaráðherra um að fjölga beri réttindagæslumönnum fatlaðs fólks og að aukið sé við eftirlit með starfsemi þjónustu við fatlað fólk.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir