„Þarf aðgerðir strax í vegamálunum,“ segir Bjarni Jónsson

Vegurinn í Hegranesinu er ekki árennilegur á að líta. Mynd: Guðrún Lárusdóttir
Vegurinn í Hegranesinu er ekki árennilegur á að líta. Mynd: Guðrún Lárusdóttir

Bjarni Jónsson, sem tók sæti sem varamaður á Alþingi í lok mars, beindi fyrirspurnum til samgönguráðherra varðandi fjármuni til viðhalds og uppbyggingar þriggja tengivega á Norðurlandi vestra. Vegirnir sem um ræðir eru Hegranesvegur, Reykjastrandarvegur og Vatnsnesvegur. Nú hefur borist svar frá ráðherra við fyrirspurnum Bjarna sem segir svörin valda miklum vonbrigðum.

„Það er ljóst að íbúar þurfa að bíta í skjaldarrendur ásamt því að tuska aðeins þingmennina, sem hrokkið hafa undan, til að sækja þessar vegabætur. Samgönguráðherra svarar því ekki hvort hann hyggist beita sér fyrir því að viðbótarfjármagni verði varið til viðhalds og uppbyggingar á þessum vegum. Þannig að frumkvæðið er ekki að fara að koma úr þeirri áttinni. Nú liggja þessi svör fyrir og ljóst hvert verkefni heimamanna er. Það þarf aðgerðir strax,“ segir Bjarni.

Hér má sjá svör ráðherra ásamt fyrirspurnum Bjarna:

     1.      Hve miklum fjármunum verður varið á þessu ári til viðhalds og uppbyggingar á:
                  a.      Hegranesvegi nr. 764,
                  b.      Reykjastrandarvegi nr. 748,
                  c.      Vatnsnesvegi nr. 711?

    Hegranesvegur er 21 km að lengd. Fjárveiting til nýframkvæmda er 104 millj. kr. Til viðhalds og þjónustu eru ætlaðar 3 millj. kr.
    Reykjastrandarvegur er 11 km að lengd. Engin fjárveiting er til nýframkvæmda. Til viðhalds og þjónustu er áætlað að verja 4 millj. kr.
    Vatnsnesvegur er 77 km að lengd. Engin fjárveiting er til nýframkvæmda. Til viðhalds og þjónustu er áætlað að verja 35 millj. kr.

     2.      Telur ráðherra að það fé nægi til fullnægjandi endurbóta á framangreindum vegum eða hyggst hann beita sér fyrir því að viðbótarfjármagn verði veitt til uppbyggingar þeirra og ef svo er, hve miklu og hvenær?
    Fjármagn sem ætlað er til viðhalds veganna þriggja í ár er aðeins til brýnustu aðgerða. Ættu fjárveitingar til viðhalds að uppfylla það sem Vegagerðin hefur skilgreint sem þörf, þyrftu þær að vera a.m.k. tvöfalt hærri. Sérstaklega væri brýnt að fá fé til uppbyggingar Reykjastrandarvegar og Vatnsnesvegar.
    Fé til vegamála, sem og til annarra samgöngumála, hefur verið af skornum skammti undanfarin ár. Víða skortir fé til viðhalds og uppbyggingar. Alþingi hefur síðasta orðið um fjárveitingar til samgöngumála sem og annarra málaflokka.

     3.      Liggur fyrir tímasett áætlun um hvenær bundið slitlag verður lagt á vegina og þeim framkvæmdum lokið?
    Ekki liggur fyrir tímasett áætlun um að koma bundnu slitlagi á vegina þrjá. Hins vegar er ætlunin að leggja bundið slitlag á 5 km af Hegranesvegi í ár. Ekki hefur verið ráðstafað fé til að halda áfram að leggja bundið slitlag á veginn en eins og að framan greinir er hann 21 km að lengd.
    Reikna má með að það kosti allt að 50–60 millj. kr. að leggja einn kílómetra af bundnu slitlagi á vegi eins og Vatnsnesveg. Það er því ljóst að um umtalsverðar fjárhæðir er að ræða. Ef unnt er að leggja bundið slitlag á tengivegi, líka Hegranesveg, án mikilla breytinga eða uppbyggingar má áætla að kostnaður sé allt að 30 millj. kr. á km.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir