Að þora að taka skrefið

Áskorandi María Eymundsdóttir Sauðárkróki og Huldulandi
Eitt af hlutverkum manneskjunnar er að finna sinn stað í lífinu þar sem henni líður sem best. Snýr það að búsetu og ekki síður hvernig manneskja maður vill ver(ð)a og hvað á að gera. Það er ekki eitthvað verkefni sem klárast á einu kvöldi eða degi heldur lýtur stöðugum breytingum eftir, auknum, þroska einstaklinga og þeim áskorunum sem tekist er á við. Þá er gott að reyna reglulega á sig og stíga út fyrir þægindarammann.

Síðustu ár hafa einkennst af sífelldum áskorunum þar sem ég hef sífellt þurft að ögra sjálfri

mér og komið mér á óvart. Byrjaði það allt á einu dimmu kvöldi í desember þar sem við hjónin sáum grein um býflugnarækt á Íslandi. Það var nú eitthvað sem okkur fannst spennandi enda haft mikinn áhuga á sjálfsþurftarbúskap. Efasemdaröddin var samt mjög hávær með öll sín rök fyrir því að fara ekki í býflugnarækt. Háværasta röddin var á fullu að segja mér að þetta væri algjört rugl. Býflugurnar væru að sjálfsögðu stórhættuleg dýr og ég hefði nú ekki eytt síðustu 30 árum í að passa mig á þessum óargadýrum að ástæðulausu.

Það veit það nú hvert einasta mannsbarn að þeirra eini tilgangur í lífinu er að sæta færis að stinga sárasaklaust fólk sem hefur ekkert til saka unnið annað en að vera á sama stað og bannsett flugan.

Á móti tókst á skynsemisröddin sem beitti öllum sínum rökum til að sannfæra mig um að ég þyrfti nú ekkert að óttast. Ég hefði nú ekki enn verið stungin og það þrátt fyrir að hafa fengið röndóttar flugur í næturgistingu og heimsóknir og meira að segja farið á rúntinn með einni. Að ég tali nú ekki um allar þúsundirnar sem ég hef mætt á ferðum mínum.

Sem betur fer vann skynsemisröddin og ég varð að býflugnabónda í Skagafirði. Ég verð samt að viðurkenna að blóðþrýstingurinn hafi líklega eitthvað hækkað fyrsta árið og ég nokkrum sinnum verið fullviss um að ég yrði ekki mikið eldri, enda stórhættuleg dýr eins og allir vita.

Þremur árum síðar er hugrekkið búið að aukast töluvert. Blóðþrýstingurinn er kominn í samt lag þrátt fyrir að hafa verið stungin í fyrsta skiptið í sumar. Komst ég nokkuð klakklaust út úr þeirri lífsreynslu og er enn á lífi en ekki er sömu sögu að segja af blessuðum flugunum sem voru að verja búið sitt.

Ég nýt þess að horfa á býflugurnar vinna og auðga náttúruna og þarf ekki einu sinni að vera í búning nálægt þeim. Humlurnar eru allt í einu orðnar að krúttlegum flögrandi hnoðrum og geitungarnir eru hinir ágætustu þjónar við að halda blaðlúsinni í skefjum.

Það er magnað hvað mikið getur breyst við það eitt að þora að taka skrefið.

Ég ætla að skora á Berglindi Þorsteinsdóttur að taka við áskorendapennanum.

Áður birst í 7. tbl. Feykis 2018

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir