Farskólinn útskrifar átta svæðisleiðsögumenn

Frá útskriftinni. Neðsta röð frá vinstri: Kristín Lundberg og Sarah Holzem. Næsta röð: Dagný Sigmarsdóttir og Khatarina Ruppel. Næsta röð: Sigrún Sigurðardóttir og Eydís Magnúsdóttir. Efsta röð: Bryndís Þráinsdóttir, framkvæmdastjóri Farskólans, Jón Ólafur Sigurjónsson, Ólafur Bernódusson og Kristín Einarsdóttir, verkefnastjóri. Mynd: Farskólinn.is.
Frá útskriftinni. Neðsta röð frá vinstri: Kristín Lundberg og Sarah Holzem. Næsta röð: Dagný Sigmarsdóttir og Khatarina Ruppel. Næsta röð: Sigrún Sigurðardóttir og Eydís Magnúsdóttir. Efsta röð: Bryndís Þráinsdóttir, framkvæmdastjóri Farskólans, Jón Ólafur Sigurjónsson, Ólafur Bernódusson og Kristín Einarsdóttir, verkefnastjóri. Mynd: Farskólinn.is.

Í desember sl. lauk tveggja anna námi í svæðisleiðsögn hjá Farskólanum, miðstöð símenntunar á Norðurlandi vestra. Námið hófst í janúar 2017 og fór formleg útskrift fram þann 12. janúar frá Gauksmýri í Húnaþingi vestra.

Ellefu nemendur hófu nám í janúar en átta luku því nú í desember. Nemendur komu af öllu svæðinu en tveir þeirra komu úr Húnaþingi vestra, þrír frá Skagaströnd og þrír úr Skagafirði.

Helstu námsgreinar í svæðisleiðsögninni eru jarðfræði, saga, bókmenntir, listir og svæðalýsingar á Norðurlandi vestra. Auk þess var mikil áhersla lögð á svæðisleiðsögn, nemendur lærðu að leiðsegja erlendum ferðamönnum og var hópurinn þjálfaður í ensku. Í því skyni voru farnar sex dagsferðir í rútu þar sem nemendur æfðu sig í leiðsögn um svæðið. Verkefnastjóri námsins var Kristín Sigurrós Einarsdóttir sem sjálf hefur lokið námi í svæðisleiðsögn og hefur starfað við ferðaþjónustu. Menntaskólinn í Kópavogi veitti faglegan stuðning og reynslumiklir leiðbeinendur komu víða að.

Aðilar innan ferðaþjónustunnar á svæðinu hafa mikinn áhuga á að bjóða upp á þetta nám aftur en 20 ár eru nú liðin frá því það var síðast í boði. Að sögn Bryndísar Þráinsdóttur, framkvæmdastjóra Farskólans, er það í athugun en til að námið standi undir sér þarf að minnsta kosti 15 nemendur. Samtök sveitarfélaga á Norðurlandi vestra, SSNV, styrktu námið að þessu sinni og voru ferðamálafélögin á Norðurlandi vestra einnig tilbúin að styðja við verkefnið ef á þyrfti að halda og er Farskólinn er afar þakklátur þessum aðilum fyrir þeirra stuðning og velvild gagnvart verkefninu að sögn Bryndísar.   

 

 

 

 

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir