Feykir um allt Norðurland vestra

Í Feyki vikunnar er ýmislegt skemmtilegt að sjá eins og oft áður. Þar sem tími gangna og rétta, þá sérstaklega stóðrétta, eru um þessar mundir eru viðtöl við valinkunna hestamenn í blaðinu ásamt öðru skemmtilegu efni. Feykir vikunnar á að berast inn á hvert heimili á Norðurlandi vestra að þessu og vonandi heimilisfólki til ánægju.

Stefán Friðriksson, dýralæknir í Glæsibæ hefur tekið við að föður sínum, Friðriki Stefánssyni  sem gangnaforingi í Staðarfjöllum. Hann segir á forsíðu að erfiðara sé að manna göngur nú en áður en samt gengið ágætlega að smala fjöllin.

Halldór bóndi í Brimnesi segir, í skemmtilegu spjalli, frá hestamennsku hans, upplifun sinni af ferðamennsku í Laufskálaréttunum. Hann segist, aðspurður um hvort allur sá mannfjöldi sem heimsækir Laufskálarétt sé til trafala, aldrei tala um það á þann hátt. „... þetta er okkar gleðidagur og að hafa aðra með sér, það er stundum ekki nóg að vera glaður einn. Það er mjög þekkt að því fleiri sem eru glaðir saman, þá verður líðanin betri,“ segir Brimnesbóndinn að lokum.

Í aðalviðtali er annar hrossabóndi, Júlíus Guðni Antonsson, sem nú býr á Laugarbakka. Hann ræðir m.a. um göngur og réttir í Víðidalstungurétt og aðkomu sína að þeim. Kristín Lundberg, konan hans, slær botninn í viðtalið með sögu af bóndanum sem sat inn í stofu og drakk koníak þegar hún hélt að hann væri að smala í afar slæmu veðri líkt og hún.

Auk fastra liða, heldur Kristín Guðmundsdóttir í Húnaþingi, á áskorendapennanum, Helga Rós Indriðadóttir svarar spurningum í Tón-lystinni, Jóna Guðrún úr Hrútafirðinum er með Bók-haldið og hinn ódauðlegi vísnaþáttur er á sínum stað. Þar eru skemmtilegar sögur í bland við vísur og m.a. tvær eftir Ingólf Ómar sem má vel leika sér að á þessum árstíma.

Eitt er ráðið allra best
eyðir sálardrunga.
Fá sér bæði hund og hest
og heimasætu unga.

Öll sú gleði örvar sál
allt vill lífið bæta.
Vakur hestur, vín á skál
og viljug heimasæta.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir