Fjörðurinn fagri

Kæru lesendur Feykis. Eiginkona mín Karen Ösp Garðarsdóttir skoraði á mig að rita gestapistil í Feyki og ákvað ég að verða við þeirri áskorun. Ég ólst upp á Djúpavogi á Austfjörðunum. Fyrir mér er Berufjörðurinn „fjörðurinn fagri“ og Búlandstindurinn er „fjallið mitt“ þó liðin séu ellefu ár síðan ég flutti í burtu þaðan. Á þeim ellefu árum sem liðin eru, hef ég búið víða; í Reykjanesbæ, í Fjarðabyggð, í Reykjavík og á Akureyri.

Eins og lesendur greindu af gestapistli eiginkonu minnar er ég síðan nýfluttur til Hvammstanga. Það var ekki það sem ég sá fyrir mér að myndi gerast, en ég verð að segja eins og er að Norðurland vestra hefur komið mér skemmtilega á óvart. Samfélagið hér í Húnaþingi vestra er mun opnara en ég gerði mér grein fyrir en á sama tíma er það jafnframt afslappaðra en ég hef áður átt að venjast.

Fyrir mér minnir samfélagið í Húnaþingi vestra á það samfélag sem ég ólst upp í á Djúpavogi. Samfélagið myndar þétt öryggisnet utan um börnin manns og maður getur loksins leyft elsta stráknum að fara einum út að leika án þess að fara á taugum yfir því að eitthvað geti komið fyrir hann. Það fylgja því góðir kostir að búa í fámenninu, þó svo maður þurfi að fórna ýmsum lúxus í staðinn.

Fyrst um sinn eftir að ég flutti á Hvammstanga leið mér svolítið eins og „Englendingnum í New York“ sem Sting söng um í frægu lagi. En eftir að ég tók að mér tímabundið hlutastarf í kaupfélaginu á staðnum gaf ég jafnframt skotfæri á að fólk á staðnum gæti kynnst mér, sem það og nýtti.

Ég ber mikið traust til Húnaþings vestra sem framtíðarheimilis míns. Að vísu vildi ég að vinnumarkaðurinn hér væri líflegri svo maður gæti hætt í námi og farið að koma sér betur fyrir. En umfram allt, þá er ég, kona mín og strákarnir okkar þrír mjög hamingjusöm hér.

Ég verð að vísu alltaf Austfirðingur í hjarta mínu. En ég gæti alveg vanist því að vera aðfluttur íbúi við Húnaflóann.

Sigurjón Þórsson, tæknifræðingur á Hvammstanga

Áður birst í Feyki 45. tbl.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir