Foreldrar ungbarna vilja úrbætur í dagvistunarmálum

Stefán Vagn Stefánsson formaður byggðaráðs tekur við undirskriftalista ú höndum Unnars Bjarka Egilssonar í gær. Mynd: Margeir Friðriksson.
Stefán Vagn Stefánsson formaður byggðaráðs tekur við undirskriftalista ú höndum Unnars Bjarka Egilssonar í gær. Mynd: Margeir Friðriksson.

Í gærmorgun mættu nokkrir foreldrar ungbarna á Sauðárkróki á fund byggðaráðs Svf. Skagafjarðar og afhentu undirskriftalista 45 foreldra þar sem farið er fram á úrlausn daggæslu yngstu barna á Sauðárkróki. Vandræðaástand hefur skapast hjá foreldrum sem ekki koma börnum sínum í dagvistun milli þess er fæðingarorlofi lýkur og þangað til börnin komast á leikskóla.

Nokkur umræða hefur verið um þessi mál á samfélagsmiðlum en það voru þau Unnar Bjarki Egilsson og Elín Árdís Björnsdóttir sem stofnuðu facebook hóp sem heitir Þrýstihópur vegna vistunarúrræða í Sveitarfélaginu Skagafirði og þar var foreldrum í svipaðri stöðu boðin þátttaka og undirskriftum safnað saman. Þau eiga 16 mánaða dreng sem ekki hefur tekist að fá gæslu fyrir og setur það fjölskylduna í erfiða stöðu og vissu af fleirum í sömu stöðu. Að sögn Unnars veltu foreldrar upp ýmsum hugmyndum áður en bréfið var samið af Evu Pandoru Baldursdóttur þingmanni Pírata. 

Foreldrar ungbarna mættu á fund byggðaráðs og óskuðu eftir úrbótum á dagvistarmálum á Sauðárkróki. Mynd: Margeir Friðriksson.„Við vildum kanna hvað væru margir í þessari stöðu og í ljós kom að við fengum undirskriftir frá 45 foreldrum í sömu stöðu eða sjá fram á sömu stöðu á stuttum tíma og eru þá ekki allir taldir. Þessi staða er ekki góð að neinu leiti því foreldrar komast ekki út á vinnumarkaðinn fyrr en löngu seinna en eðlilegt telst, barnið missir af ákveðnum félagslegum þroska því það umgengst ekki dags daglega önnur  börn og allra síst er þetta aðlaðandi fyrir brottflutta Skagfirðinga sem eru komin með börn og langar að flytja „heim“ aftur,“ segir Unnar.

Hann segir að þau Elín hafi sett sig í samband við Sveitastjórnina með tölvupósti. „Sveitastjórinn tók vel í þetta málefni og bauð okkur foreldrum að koma á fund Byggðarráðs Skagafjarðar. Okkur var mjög vel tekið, málin rædd og lofa þau að reyna að leysa þetta vandamál í sameiningu við okkur.“

Unnar segir að tilgangurinn með þessu bréfi sé sá að kalla eftir fundi með Sveitastjórn og útskýra stöðu þessara foreldra og ýta á eftir úrlausnum í þessum málaflokki, hvernig sem því verður háttað. „Fyrst að það virðist ekki vera hægt að fá fólk til þess að starfa við daggæslu, þó ítrekað hafi verið auglýst eftir því. Spurningin er sú af hverju fæst ekki fólk í að starfa við daggæslu? Eða er einhver önnur lausn betri? En ungbarnaleikskóli er eitt af því sem hefur reynst vel í öðrum sveitarfélögum,“ segir Unnar.

Á heimasíðu sveitarfélagsins segir að vinna sé í gangi til að leysa þann vanda sem fyrir er í þessum málum.

Uppfært: Miskilnings gætti hjá undirrituðum um hvernig bréfið var tilkomið en hefur nú verið lagfært.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir