Forsetakosningar 2016

Guðríður B. Helgadóttir. Mynd/BÞ
Guðríður B. Helgadóttir. Mynd/BÞ

Fyrir þessar kosningar hefur verið óvenjulega mikið talað um óskýrar reglur varðandi stöðu forseta Íslands. Í minni vitund hefur það aldrei verið neitt vafamál að honum er ætlað það hlutverk, sem þjóðkjörnum fulltrúa, að vera fulltrúi þjóðarinnar allrar og öryggisventill gagnvart óhyggilegum lagasetningum flokkspólitískra meirihluta afla á þingi, eða öðrum varhugaverðum ákvörðunum stjórnar, sem orkað geta tvímælis og þjóðin öll á að fá að greiða atkvæði um áður en gert er að lögum. Séu þessi ákvæði ekki nógu skýrt orðuð í stjórnarskrá svo allir skilji, þarf að bæta þar um og breyta orðalagi. En þessi meining gildi áfram. Að öðrum kosti er hann ekki fulltrúi fólksins í landinu en getur orðið handbendi og framlenging ráðherravaldsins, sem er ærið fyrir.  

Þess vegna voru það slæm mistök að afgreiða ekki stjórnarskrármálið fyrir þessar kosningar. Ekki síst vegna þess sem á undan er gengið á síðustu mánuðum og sýnt hefur svo ekki verður véfengt, að veltur á miklu hver fer með það vald. Fráfarandi forseti hefur áður sýnt að hann er þarna fulltrúi allrar þjóðarinnar, með því að vísa til hennar álitamálum til atkvæðagreiðslu. Og þjóðin hefur sýnt og sannað að hún er fullkomlega fær um að axla þá ábyrgð.

Í framboði til þessara kosninga má segja að valið stendur á milli margra góðra einstaklinga. Sem reynast mundu færir og frambærilegir til að taka að sér þetta mikilvæga hlutverk.

Tveir ungir menn eru þó líklegastir til að standa undir væntingum fjöldans bæði sem atgerfi og upplag snertir. Annar hefur diplómatíska reynslu og þekkingu á klækjum pólitíska valdsins. Hinn er djúpt kafandi hugsjónamaður um velferð lífsins á jörðinni og meðferð mannanna á þeim verðmætum. Báðir eru þeir vel menntaðir og fróðir um land og þjóð, enda sprottnir upp úr líkum jarðvegi alþýðufólksins.  Báðir eru óflokksbundnir og ómerktir af strangtrúnaði í pólitík .

  • Annar: Guðni Th. hefur skrifað bækur um stjórnarfar og pólitík.
  • Hinn: Andri Snær, hefur skrifað safamiklar og margræðar ævintýrabækur fyrir börn og fullorðna, þýddar á mörg tungumál og margverðlaunaðar hér heima og erlendis. Einnig Sjálfshjálparbók fyrir hrædda þjóð, rökstudda rannsókn á orsök og afleiðingum þess fyrir Ísland, að ánetjast ofurvaldi álrisanna og gangast undir sjálfdæmi þeirra í yfirgangi við land og þjóð.

Báðir þessir ungu menn, Andri Snær Magnason og Guðni Th. Jóhannesson, eru líklegir til að verða sómi landsins út á við og embættinu samboðnir, en í mínum huga er Andri Snær „Sómi Íslands sverð og skjöldur“ í baráttunni við eyðingaröfl auðhringaveldis og ójafnaðar.

Í ljósi lífsreynslu minnar veit ég að Andri Snær er afbragð annarra frambjóðenda og vona  að hann verði næsti forseti Íslands.    

Guðríður B. Helgadóttir.     

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir