Framkvæmdastjórn Heilbrigðisstofnunar Norðurlands lýsir yfir vonbrigðum með nýútgefið frumvarp til fjárlaga

Heilbrigðisstofnanirnar á Blönduósi og Sauðárkróki.
Heilbrigðisstofnanirnar á Blönduósi og Sauðárkróki.

Framkvæmdastjórn Heilbrigðisstofnunar Norðurlands (HSN) lýsir yfir vonbrigðum með nýútgefið fjárlagafrumvarp. Í þeim auknu fjárframlögum sem ætluð eru til að styrkja rekstur heilbrigðisþjónustu í landinu er litið framhjá heilbrigðisstofnunni og í staðinn sett 20 milljóna króna hagræðingarkrafa á hana. 

Heilbrigðisstofnun Norðurlands veitir öfluga þjónustu á mörgum sviðum og reksturinn er í jafnvægi. Starfssvæði stofnunarinnar nær frá Blönduósi til Þórshafnar og sinnir allri heilsugæslu á því svæði,  en íbúar eru rúmlega 35.000 þús. Einnig er stofnunin með fjögur almenn sjúkrahús með 149 hjúkrunar-, sjúkra- og dvalarrýmum.

Líkt og annar staðar eru íbúar að eldast og skjólstæðingar veikari þegar þeir útskrifast af sjúkrahúsum. Samkvæmt lýðheilsuvísum landlæknis 2016 og 2017 eru marktækt fleiri íbúar á Norðurlandi sem meta bæði líkamlega og andlega heilsu sína slæma eða lélega samanborið við landsmeðaltal. Það er staðreynd að aðgengi íbúa á Norðurlandi að sérfræðiþjónustu lækna er mun minna en á höfuðborgarsvæðinu. Minni sérfræðiþjónusta eykur álag á heilsugæsluna og því er nauðsynlegt að efla heilsugæslu og alla þjónustu í kringum hana fyrir íbúa á svæðinu. Til þess þarf að veita auknum fjármunum m.a. til heimahjúkrunar og geðþjónustu og til að bæta aðgengi að læknum og öðru fagfólki.

Heilbrigðisstofnun Norðurlands skorar á heilbrigðisráðherra og þingmenn að bregðast við og sjá til þess að á Norðurlandi verði heilbrigðisþjónustan styrkt með auknum fjárframlögum eins og annarsstaðar. 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir