Framtíð Vestfjarða er björt

Líf okkar sem búum á Vestfjörðum er eftirsóknarvert og mörg tækifæri eru í farvatninu  til að efla samfélagið. Tækifærin felast fyrst og fremst í auðugri náttúru okkar í bland við hugvit og sköpun fólksins sem hér býr. Ég fullyrði að það sé ansi langt síðan svo bjart hafi verið yfir samfélaginu okkar. Við upplifum nú vaxandi þrótt eftir mörg mögur ár sjávarbyggða í tilvistarkreppu, gjaldþrot fiskvinnsla, kvóta sem seldur var hæstbjóðanda og fólksflótta. Nú er staðan önnur víðast hvar á Vestfjörðum, þó enn séu fámennustu byggðirnar í vanda. Ný tækifæri í ferðaþjónustu, menntun og fiskeldi hafa gjörbreytt trú fólks á samfélagið.

Tækifærin eru innan seilingar

Á Íslandi hefur verið mikill hagvöxtur sl. ár og gera má ráð fyrir að eitthvað dragi úr vextinum. Við þurfum að halda hagvextinum gangandi og skapa fleiri atvinnutækifæri. Þar getum við Vestfirðingar lagt þung lóð á vogarskálarnar, því við erum í kjörstöðu til að leggja meira til þjóðarbúsins. Til þess að svo geti orðið þarf tvennt að koma til. Sterkir innviðir og nýting atvinnutækifæra. 

Fiskeldi

Vestfirðir eru umhverfisvottaðir. Sú stefna er leiðarljós í öllu því sem við tökum okkur fyrir hendur. Mikilvægt er að áhersla sé lögð á það í umræðunni um laxeldi. Ég hef verið fylgjandi uppbyggingu fiskeldsins enda sé það gert með umhverfisvænum hætti og byggt upp  með þekkingu og rannsóknir að leiðarljósi. Við sem eigum allt undir vestfirskri náttúru gerum kröfur á fiskeldisfyrirtækin um að þau gangi vel um náttúruna og starfi eftir ströngu eftirliti og skilyrðum.

KPMG gerði fyrir stuttu greiningu á áhrifum laxeldis í Ísafjarðardjúpi á efnahag og íbúaþróun á norðanverðum Vestfjörðum. Fjórðungssamband Vestfirðinga hefur í framhaldinu notað sömu forsendur og áætlað áhrif laxeldis á Vestfirði miðað við burðarþolsmat Hafró. Þá er gert ráð fyrir 70.tonna eldi á Vestfjörðum.  Niðurstöðurnar gefur samfélaginu byr í seglin.  

  • Heildarverðmæti má áætla að verði því um 65 milljarðar.
  • Bein störf 730 og afleidd störf um 420, samtals um 1.150 störf (þar af er nú talið að um 200 störf séu þegar kominn á Vestfirði miðað við um 10 þ tonna framleiðslu.)
  • Íbúaþróun, miðað við þegar bein störf eru í hámarki að það fjölgi um 2.500 manns m.t.t. ruðningsáhrifa. Leggja má það mat að þessi 200 störf sem þegar eru kominn að þau standi á bak við um 400 - 450 íbúa. Nettófjölgun er hinsvegar minni, en við sjáum bara fjölgun í Vesturbyggð um 130 manns frá árinu 2008, í öðrum sveitarfélögum á fiskeldissvæðinu er enn fækkun, en eins má segja að þessi uppbygging hafi komið í veg fyrir meiri fólksfækkun að óbreyttu og hugsanlega hrun í einhverjum byggðalögum.

 

  • Arðgreiðslur til ríkissjóðs verði 2,8 milljarðar á ári og um 700 m.kr. renni til sveitarfélaga, þegar flest bein störf eru til staðar og framleiðsla kominn í hámark

Það kom mér í opna skjöldu þegar lagst var gegn fiskeldi í Ísafjarðardjúpi fyrr á þessu ári. Fyrirtæki og sveitarfélög á svæðinu hafa verið að vinna að því verkefni í nokkur ár, í samræmi við gildandi lög. Mín upplifun er sú að ráðmenn hafi brugðist og hafi ekki horft í lausnum. Pólitíska forystu vantaði og fáir stjórnamálamenn virtust hafa raunverulegan áhuga á málinu, enda þögðu þeir þunnu hljóði þar til afstaða þeirra var dregin út með töngum og kallaður til sérstakur borgarafundur.   

Innviðir

Innviðirnir þurfa að vera í lagi svo við getum fullnýtt tækifærin sem hér liggja og um leið lagt meira til þjóðarbúsins. Við þurfum alvöru samgöngur. Örugga vegi sem þola vöruflutninga og gera okkur kleift að ferðast á milli byggðarlaga allt árið um kring. Hafnir sem uppfylla þarfir hafsækinnar starfsemi.  Fjarskipti og ljósleiðarar eru grunnstoðir hvers samfélags, ef það á að fá að þróast í takt við tímann. Vaxandi atvinnugreinar t.a.m. ferðaþjónusta eiga allt undir sterkum innviðum svo þær geti skilað sínu til samfélagsins.

Sýn mín er sú að á sjálfbærum Vestfjörðum þrífist skapandi og fallegt mannlíf með þróttmiklu atvinnulífi  í sátt við náttúruna. Þannig getum við staðið undir þeirri velferð sem íbúarnir kalla eftir.

Þetta er ekki svo flókið. Þetta kallar á töluverða fjárfestingu í innviðum og pólitískan vilja. En launin verða ríkuleg, til lengri tíma lítið, í sterkum sjálfbærum samfélögum um land allt.

Arna Lára Jónsdóttir

skipar 2.sæti á lista Samfylkingarinnar í Norðvesturkjördæmi

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir