Fundaferð Bændasamtaka Íslands

Úr Miðfjarðarrétt sl. haust. Mynd: Anna Scheving.
Úr Miðfjarðarrétt sl. haust. Mynd: Anna Scheving.

Forysta Bændasamtaka Íslands heldur í fundaferð um landið í næstu viku. Með í för verða fulltrúar frá Ráðgjafarmiðstöð landbúnaðarins sem munu meðal annars ræða um fagmennsku í greininni, framtíðarsýn og þróun ráðgjafarþjónustu. Alls eru skipulagðir 18 almennir bændafundir, víðsvegar um landið og hefjast þeir á næsta þriðjudag.

Í auglýsingu um fundina í nýjasta tölublaði Bændablaðsins ávarpar Sindri Sigurgeirsson félagsmenn Bændasamtaka Íslands og segir meðal annars: „Miklar breytingar hafa orðið á okkar atvinnugrein síðustu misseri og þróunin er hröð. Árið 2017 var fyrsta ár nýrra búvörusamninga en verðþróun á afurðum var ekki öllum bændum hagstæð. Fram undan er fyrri endurskoðun samninganna og fjölmargar áskoranir bíða bænda á markaði. Ferðamannafjöldi mun ná nýjum hæðum á árinu og fleiri munna þarf að metta. Innflutningur á mat hefur aukist og blikur eru á lofti vegna nýlegs dóms EFTA-dómstólsins um innflutning á hráu kjöti og eggjum. En tækifærin eru mýmörg og það er okkar að grípa þau. Það er mikilvægt fyrir bændastéina að hún standi saman og að rödd okkar hljómi sem víðast og sterkast. Við verðum að gæta hagsmuna landbúnaðarins og þess vegna rekum við öflug Bændasamtök.“

Fundirnir hefjast, eins og áður segir, næsta þriðjudag.  Á Norðurlandi vestra verður fundað í Félagsheimilinu á Blönduósi í hádeginu á miðvikudag, 17. janúar og hefst fundurinn klukkan 12:00, og á Löngumýri í Skagafirði miðvikudagskvöldið 18. janúar klukkan 20:30.

Allir félagsmenn í Bændasamtökum Íslands eru velkomnir á fundina. Nánari upplýsingar um staði og tímasetningar er að finna á bondi. is og í auglýsingu á bls. 39 í 1. tbl. Bændablaðsins 2018.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir