Fyrirmyndarfrumkvöðlar í loftið í vikunni

Þáttur um frumkvöðla á Norðurlandi vestra fer í loftið á FeykiTV á fimmtudaginn.
Þáttur um frumkvöðla á Norðurlandi vestra fer í loftið á FeykiTV á fimmtudaginn.

Á fimmtudaginn fara í loftið nýir netþættir á FeykirTV sem bera yfirskriftina Fyrirmyndarfrumkvöðlar. Eru þeir framleiddir af Feyki og Skottu kvikmyndafjelagi, sem njóta styrkjar frá Uppbyggingasjóði Norðurlands vestra til þáttagerðarinnar.

Um er að ræða sjö þætti. Í þáttunum er rætt við forsvarsmenn frumkvöðlafyrirtækja á Norðurlandi vestra. Í fyrstu sex þáttunum er fyrirtæki heimsótt og farið er yfir starfsemina, allt frá hugmynd til framleiðslu, og viðmælendur inntir eftir því hvernig ferlið gengur fyrir sig og hvernig staðið er að hinum ýmsu þáttum starfseminnar. Í lokaþættinum koma viðmælendur allra sex fyrirtækjanna saman, ásamt þriggja manna ráðgjafanefnd, og ræða um frumkvöðlastarf.

Í fyrsta þættinum verður farið í heimsókn að bænum Syðra-Skörðugili í Skagafirði. Þar verður rætt við þau Ásdísi Sigurjónsdóttur, Einar E. Einarsson og Sólborgu Unu Pálsdóttur, sem standa að framleiðslu smyrsla úr minkafitu undir vörumerkinu Gandur.

Þáttagerðin er í höndum Árna Gunnarsson kvikmyndagerðarmanns, Berglindar Þorsteinsdóttur, ritstjóra Feykis og Kristínar Einarsdóttur, blaðamanns hjá Feyki. Þáttastjórnendur eru Berglind og Kristín en um upptökur og eftirvinnslu sér Árni Gunnarsson.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir