Fyrsta íbúðarhús sinnar tegundar

Gunnhildur Ása Sigurðardóttir og Heiðar Örn Stefánsson, ásamt tveimur af þremur sonum sínum, við Kleifatún 10. Mynd/BÞ
Gunnhildur Ása Sigurðardóttir og Heiðar Örn Stefánsson, ásamt tveimur af þremur sonum sínum, við Kleifatún 10. Mynd/BÞ

Hjónin Heiðar Örn Stefánsson og Gunnhildur Ása Sigurðardóttir eru um þessar mundir að reisa sér um 220 fm2 hús í Kleifatúni á Sauðárkróki. Verkið hófst þann 3. ágúst sl. og verður húsið fokhelt núna í vikunni, sem hlýtur að teljast ótrúlegur tími. Um er að ræða fyrsta íbúðarhúsið sinnar tegundar, með nýrri tegund af yleiningum frá Límtré Vírnet sem er að mörgu leiti frábrugðin öðrum byggingarmáta.

„Aðal kosturinn við þennan byggingarmáta er að það á að verða töluvert fyrr fokhelt heldur en gengur og gerist, en samt ekkert verið að spara í kröfum eða gæðum,“ segja Heiðar og Gunnhildur en hjónin keyptu grunninn sem húsið er reist á fyrir tveimur árum síðan. „Við erum búin að vera að skoða það sem er í boði. Faðir minn er framkvæmdastjóri hjá Límtré Vírnet og ég vissi af eldri lausnum sem þeir voru að bjóða uppá í íbúðarhúsum, ég vissi að þeir voru að skoða þessa nýju lausn, þar sem einingin kemur með endanlegri stálklæðningu að utan,“ segir Heiðar en nokkur hús hafa verið byggð með eldri lausninni, þ.m.t. tvö í Varmahlíð. Úr nýju einingalínunni hafa verið afgreiddar einingar í nokkur hús og m.a. tvö dómarahús á Hólum í Hjaltadal, nú í sumar. 

Í framhaldi af viðræðum við fyrirtækið tóku hjónin sig saman við önnur hjón sem ætla að byggja samskonar hús við sömu götu; þau Axel Eyjólfsson og Ósk Bjarnadóttur. Í sameiningu fengu þau hagstæðan samning við Límtré Vírnet en þar sem um frumraun er að ræða í byggingu svona íbúðarhúss með þessari lausn þróa þau þetta með fyrirtækinu, ásamt Magnúsi Invarssyni hjá Stoð og Trausta Val Traustasyni, sem jafnframt sér um reisningu húsanna með sínum mannskap.

„Þetta er mjög einfalt - timburgrind úr límtré, timburásar, nokkrar stálstoðir undir límtrésbita í þaki, sem falla inn í milliveggina.  Steinullin í einingarnar sjálfar kemur úr Steinullarverksmiðjunni á Sauðárkróki. Utaná þessa steinull eru síðan límdar valsaðar stálplötur á báðar hliðar. Einingarnar falla vel saman og það er sett límkítti á milli, og uppvið burðarvirkið og svo skrúfað í burðarvirkið, innan frá í veggi en utanfrá á þaki,“  útskýrir Heiðar. Húsið er sagt viðhaldslítið, en annar kostur við húsið er að hægt er að klæða hvaða klæðningu sem er beint utan á veggina og er reiknað er með því við alla glugga og hurðir hjá þeim Heiðari og Gunnhildi. 

„Við stefnum á að byrja á þakinu eftir hádegið í dag og húsið verður vonandi orðið fokhelt á fimmtudag eða föstudag. Þannig að við erum að tala um innan við mánuð sem það tekur frá upphafi verks þar til húsið er orðið fokhelt og einangrað. Kosturinn við þetta er að það er allt innifalið í pakkanum; öll hönnun, timburgrindin, einingar á þak og útveggi, allar skrúfur og allt kítti í einum pakka. Þegar þakið er komið á er hægt að byrja á innviðum hússins,“ sagði Heiðar þegar blaðamaður leit við sl. þriðjudag. Hjónin vonast til þess að geta flutt inn fyrir áramót, Heiðar er þó heldur bjartsýnni en Gunnhildur.

„Við fluttum hingað aftur áramótin 2013-14 og erum búin að reyna að vera á leigumarkaðnum, sem er alveg agalegur, það er ekkert í boði sérstaklega fyrir svona stórar fjölskyldur. Við erum þegar búin að flytja þrisvar sinnum, þetta verður fjórði staðurinn og vonandi seinasti,“ segir Gunnhildur með bros á vör.

Hægt er að fylgjast með húsbyggingunni á Facebook undir síðuheitinu Kleifatún

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir