Gaf Skjalasafninu rúmlega 170 ára gamlar bækur

Sigrún Fossberg skjalavörður tekur við bókargjöfum Friðriks Aarsæther. Mynd: PF
Sigrún Fossberg skjalavörður tekur við bókargjöfum Friðriks Aarsæther. Mynd: PF

Héraðsskjalasafni Skagfirðinga barst á dögunum bókagjafir frá Friðriki Unnari Aarsæther en hann á ættir sínar að rekja í Skagafjörðinn. Önnur bókin inniheldur Passíusálma Hallgríms Péturssonar sem gefnir voru út í Reykjavík árið 1855 en hin, Fimmtíu Píslar-Hugvekjur útaf pínu og dauða Drottins vors Jesú Krists samdar af Séra Sigfúsi sál. Jónssyni, var gefin var út í Kaupmannahöfn árið 1851.

Passíusálmar Hallgríms Péturssonar og Fimmtíu Píslar-Hugvekjur útaf pínu og dauða Drottins vors Jesú Krists. Friðrik er norskur í aðra ættina en móðir hans, Halldóra Sigríður Friðriksdóttir, er frá Sunnuhvoli í Blönduhlíð, dóttir Friðriks Hallgrímssonar áður bónda þar. Hann segir bækurnar hafa verið í sinni eigu í rúm 35 ár en afi hans og nafni gaf honum þær er hann var í heimsókn á Íslandi.

„Þetta var um jólin og afi vildi gefa mér eitthvað og þá helst bækur því hann var mikill bókamaður. Hann gaf mér þessar tvær bækur sem ég tók með mér til Noregs en eru nú komnar aftur í Skagafjörðinn,“ segir Friðrik en hann hefur velt því lengi fyrir sér hvað hann ætti að gera við þær. „Ég hef hugsað þetta í tíu ár. Ég tók bækurnar fyrst með mér í Glaumbæ og talaði við forstöðumanninn þar sem benti mér á Skjalasafnið. Það er ekki mikil peningaleg verðmæti í bókunum en ég reyndi að ímynda mér hvað afi hefði viljað gera við þessar bækur. Ég er alveg viss um að hann hefði orðið ánægður með að þær rötuðu aftur í Skagafjörðinn og sérstaklega í Skjalasafnið,“ segir Friðrik ánægður með málalok.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir