Gaman að gefa Íslandsvettlingana til Bandaríkjanna

Handavinnukonan Helga Dóra í afgangapeysu með bjórvettlinga. Mynd úr einkasafni.
Handavinnukonan Helga Dóra í afgangapeysu með bjórvettlinga. Mynd úr einkasafni.

Bleikt sett fyrir bleika systur.Íslandsvettlingar og húfa.Prjóna- og handverkskonan Helga Dóra Lúðvíksdóttir á Sauðárkróki sagði frá handavinnunni sinni í 25. tölublaði Feykis á þessu ári. Hún byrjaði ung að prjóna og gafst ekki upp þótt lykkjurnar sætu stundum fastar á prjónunum. Hún hefur líka gaman af mörgu öðru handverki eins og til dæmis steinakörlum og -kerlingum sem hún hefur unnið mikið með.

Hve lengi hefur þú stundað hannyrðir?  

Ég hef alla tíð haft mjög gaman af hannyrðum. Ég lærði að prjóna svona í kringum 5-6 ára aldurinn. Þá bjó ég á Molastöðum í Fljótum og mamma var dugleg að prjóna sokka, vettlinga og annað nytsamlegt fyrir sveitastörfin. Það voru einmitt mamma og Hafey systir mín sem kenndu mér að prjóna. Ég man hvað mér þótti það gaman en stundum brast þolinmæðin hjá mér, sérstaklega þegar lykkjurnar voru svo fastar á prjóninum að það var erfitt að hreyfa þær til eða ef ég þurfti að rekja upp, það var ekki skemmtilegt. Þá fengu kennararnir mínir að gera nokkrar umferðir fyrir mig og koma mér á réttu brautina aftur.

Fyrstu stykkin voru bara hefðbundin fram og til baka verkefni, trefill eða teppi fyrir dúkkuna eða eitthvað slíkt. Seinna fóru að taka við meiri verkefni svo sem sokkar, vettlingar, húfur og peysur. 

Hvaða handavinnu þykir þér skemmtilegast að vinna?

Mér finnst mjög gaman að prófa eitthvað nýtt og glíma við nýjar uppskriftir og stundum set ég saman munstur úr ýmsum áttum eða bara upp úr mér, en ég mundi nú seint telja mig hönnuð í þeim efnum.

Mér finnst flest handavinna skemmtileg og mjög gaman að prófa eitthvað nýtt þótt það takist nú ekki endilega allt vel. Ég verð nú samt að segja að prjónarnir séu í uppáhaldi. Það er mjög slakandi t.d. að sitja með prjóna í hönd og horfa á sjónvarpið. 

Hverju ertu að vinna að um þessar mundir? 

Í dag prjóna ég mikið úr lopa, aðallega peysur. Ég hef gert vettlinga og sokka sem ég þæfi í vél og það kemur vel út. Ég gerði líka þæfðar „lúffur“ til að hengja á golfkerruna - hlýtt og gott, svo voru bjórvettlingarnir mjög vinsælir um tíma.

En ég dett stundum úr prjónastuði og finnst þá skemmtilegt að grípa í aðra handavinnu. Ég hef t.d. sagað mikið út úr tré (mdf) og málað, notaði þetta mikið í jóla- og tækifærisgafir hér áður. Á einum tíma datt ég alveg í að gera steinakarla. Þá var farið t.d. í Kálfshamarsvík og góðir steinar í þess háttar föndur sóttir. Nokkrir tröllkallar og kellingar eru hér allt í kringum mig og einhverjir hafa ratað í gjafir.

Í dag er bara hefðbundin lopapeysa á prjónunum sem verður eflaust góð í göngutúra. 

Hvaða handverk sem þú hefur unnið ert þú ánægðust með?

Skemmtilegustu verkin eru mörg og eiginlega bara það sem ég er að gera hverju sinni, en mér finnst mjög gaman að prjóna og gefa. Mér fannst t.d. mjög gaman að gefa vinkonu minni sem býr í Bandaríkjunum „Íslandsvettlingana“, það var eitthvað svo þjóðlegt.

Líklega er samt eftirminnilegasta verkefnið mitt peysa sem ég prjónaði á Björgvin Franz Gíslason, samt kannski ekki verkefnið sjálft heldur að fara með peysuna til hans og hitta þennan snilling.

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir