Gauksmýri er fyrirtæki ársins

Viðurkenningahafar á uppskeruhátíð feraþjónustunnar. Mynd: northiceland.is
Viðurkenningahafar á uppskeruhátíð feraþjónustunnar. Mynd: northiceland.is

Uppskeruhátíð ferðaþjónustunnar á Norðurlandi fór sl. fimmtudag í Mývatnssveit og samkvæmt venju voru þrjár viðurkenningar veittar: Sproti ársins, Fyrirtæki ársins og viðurkenning fyrir störf í þágu ferðaþjónustunnar. Ferðaþjónustan á Gauksmýri var sæmd viðurkenningu sem fyrirtæki ársins en hún er veitt því fyrirtæki sem hefur slitið barnsskónum og hefur skapað sér sterka stöðu á markaði.

Á heimasíðu Markaðsstofu Norðurlands segir: „Ferðaþjónustan á Gauksmýri er rótgróin og á sér sögu sem teygir sig aftur til síðustu aldar, því hún hófst árið 1999. Árið 2006 var þar opnað nýtt gistiheimili með 18 herbergjum, veitingasal og móttöku. Það voru hjónin Jóhann Albertsson og Sigríður Lárusdóttir sem stofnuðu fyrirtækið á sínum tíma, en Sigríður féll frá árið 2015. Í kjölfarið komu börn þeirra að rekstri fyrirtækisins, en í dag sjá þau Hrund Jóhannesdóttir og maður hennar Gunnar Páll Helgason um reksturinn að mestu leyti.

Gauksmýri snýst fyrst og fremst um hestamennsku og öll aðstaða á sveitabænum er til fyrirmyndar. Þar er reiðvöllur, með glænýrri stúku sem var byggð í sumar, þar sem kostir íslenska hestsins eru tíundaðir og sýndir á sérstökum sýningum sem vel eru sóttar. Gestum er síðan boðið yfir í flotta aðstöðu í hesthúsinu, þar sem þeim gefst kostur á að kynnast hestunum betur.

Gauksmýri er mikilvægt fyrirtæki í ferðaþjónustu í Húnaþingi vestra, og hefur lagt sitt af mörkum og gott betur til að stuðla að bættri byggð. Gott dæmi um það er veitingastaðurinn Sjávarborg á Hvammstanga, sem er í eigu fyrirtækisins. Staðurinn var opnaður árið 2015 og hefur eflt bæði ferðaþjónustu á svæðinu sem og atvinnulífið almennt. Matseðillinn endurspeglar umhverfið vel og eins og nafnið gefur til kynna er áherslan lögð á sjávarfang.“

 

Viðurkenningin Sproti ársins er veitt ungu fyrirtæki sem hefur skapað eftirtektarverða nýjung í ferðaþjónustu á Norðurlandi.

Sproti ársins kom í hlut Bjórbaðanna á Árskógsandi sem komu með hvelli inn í ferðaþjónustu á þessu ári.

Viðurkenninguna fyrir Störf í þágu ferðaþjónustu á Norðurlandi fær einstaklingur sem hefur haft góð áhrif á ferðaþjónustu á Norðurlandi í heild sinni og hefur starfað beint eða óbeint fyrir ferðaþjónustu á svæðinu.

Í ár er það Ólöf Hallgrímsdóttir sem hlýtur viðurkenninguna, en hún hefur undanfarin 18 ár sýnt og sannað að áhugi fólks á fjósum er ekki bara takmarkaður við mjólkurafurðir. Vogafjós í Mývatnssveit er nú með bestu veitingastöðum Norðurlands og þótt víðar væri leitað, og hefur haft mjög jákvæð áhrif á þróun ferðaþjónustu í landshlutanum.

Sjá nánar HÉR

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir