Gleðilegt sumar

Það ætti að vera ágætis veður í dag á Norðurlandi vestra. Skjáskot af vedur.is.
Það ætti að vera ágætis veður í dag á Norðurlandi vestra. Skjáskot af vedur.is.

Sumardagurinn fyrsti er í dag. Hann er einnig kallaður Yngismeyjardagur og er fyrsti dagur Hörpu, sem er fyrstur af sex sumarmánuðum í gamla norræna tímatalinu. Sumardagurinn fyrsti er í almanakinu talinn annar fimmtudagur eftir Leonisdag sem er 11. apríl hvert ár, eða með öðrum orðum fyrsti fimmtudagur eftir þann 18. Hann er því aldrei fyrr en 19. apríl og ekki síðar en þann 25. Á þessum tíma er hlýnun á vori komin vel í gang, meðalhiti 25. apríl er 0,3 stigum hærri en 19. apríl.

Á Vísindavefnum má finna eftirfarandi svar við spurningunni „Hvenær er sumardagurinn fyrsti og er hann vel valinn sem upphaf sumarsins?“

Dagurinn er hluti af misseristalinu sem tíðkast hefur hér á landi frá landnámi. Árinu er þar skipt í tvo nærri jafnlanga helminga: Sumarhelming og vetrarhelming. Þó svalt sé oft í veðri á þessum árstíma er dagurinn vel valinn af forfeðrunum því sumarið ‒ frá sumardeginum fyrsta og til fyrsta vetrardags á haustin ‒ er einmitt hlýrri helmingur ársins, en veturinn sá kaldari. Sömuleiðis verða á þessum tíma árviss fjörbrot vetrarins í háloftunum yfir landinu og sumarið tekur við, þá dregur að jafnaði mjög úr afli veðurkerfa.

Í Noregi og Svíþjóð var notað öllu frumstæðara misseristímatal, en þar er sumardagurinn fyrsti að gömlu tali þann 14. apríl og stendur sumarið til 14. október.

Árstíðaskipting er með ýmsu móti í heiminum. Ef við teljum árstíðirnar fjórar á Íslandi, stendur veturinn frá og með desember til og með mars, vorið er þá apríl og maí, sumarið júní til september og haustið er október og nóvember. Þessi skipting hefur verið notuð á Veðurstofunni í meir en 80 ár. Víðast hvar í Vestur-Evrópu og í Bandaríkjunum eru árstíðirnar taldar jafnlangar, vetur er þá desember til febrúar, vorið mars til maí og svo framvegis. Að eldri hætti var vorið í Evrópu talið byrja við vorjafndægur, sumarið við sumarsólstöður, haustið við haustjafndægur og veturinn hófst við vetrarsólstöður. Allar þessar skiptingar eiga rétt á sér og eru skynsamlegar á sinn hátt. Víða í heiminum eru aðrar skiptingar.

Íslenska misseristalið var eitt fullkomnasta tímatal síns tíma. Það varð fullþroskað á 12. öld og full ástæða er til að sýna því þá ræktarsemi sem það á skilið. Lesa má margs konar fróðleik um það á fróðleikssíðum Almanaks Háskólans.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir