Góð afkoma hjá Ámundakinn

Vilko hefur flutt starfsemi sína í gömlu Mjólkurstöðina. Mynd: Húni.is.
Vilko hefur flutt starfsemi sína í gömlu Mjólkurstöðina. Mynd: Húni.is.

Ámundakinn ehf. hélt aðalfund sinn þann 24. apríl sl. og var hann vel sóttur. Þar kom fram að afkoma félagsins var góð og skilaði rekstur þess um 26 milljón króna hagnaði, þar af 15 milljónum vegna sölu fasteigna. Á árinu fjölgaði hluthöfum og eru þeir nú 77 talsins. Hlutafé á aðalfundi var rúmlega 190 milljónir króna og eigið fé um 310 milljónir.

Umsvifin á árinu voru mikil, félagið keypti Mjólkurstöðina að Húnabraut 33 í ársbyrjun og hefur Vilko flutt starfsemi sína þangað. Vilkohúsið var selt Blönduósbæ en húsnæði bæjarins á Efstubraut 2 var keypt og leigt Ístex fyrir aukna starfsemi félagsins á Blönduósi. Þá keypti Ámundakinn 53% hlut í Fasteignafélaginu Borg á Hvammstanga af dótturfélagi Landsbankans. Var að mestu greitt fyrir með nýjum hlutum í Ámundakinn ehf. og eru Hömlur fyrirtæki ehf. nú næststærsti hluthafinn í félaginu. Ákveðið hefur verið að gera öðrum hluthöfum í Fasteignafélaginu Borg hliðstætt tilboð á næstu vikum.

Þá var kynnt viljayfirlýsing um að Ámundakinn ehf. muni byggja um 570 fm þjónustuhús vegna mjólkursöfnunar í Húnavatns- og Skagafjarðarsýslum sem verður leigt  Mjólkursamsölunni ehf. til langtíma.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir