“Hann er ekki í neinu.”

Innreið Jesú í Jerúsalem.
Innreið Jesú í Jerúsalem.

Náð sé með yður og friður frá Guði föður vorum og Drottni Jesú Kristi og gleðilega páskahátíð. Amen. 
“Leyfið börnunum að koma til mín og varnið þeim eigi því slíkra er Guðs ríki.” Svo mælti Jesús eitt sinn þegar lærisveinar hans vörnuðu börnunum því að komast nálægt honum. Hann talaði oft um börnin, og hvatti fullorðna fólkið stundum til þess að verða eins og börn. Börnin voru í hans huga saklaus og hrein og tilbúin að treysta öðrum. Þau komu til dyranna eins og þau voru klædd og sögðu sína skoðun.  En um leið höfðu þau enga sérstaka verðleika til þess að hrósa sér af.

Í gömlum helgimyndum, eða íkonum, sem sýna atburði pálmasunnudags, þegar Jesús reið á asna inn í borgina Jerúsalem í aðdraganda páskanna, þá er algengt að sjá börn í hópi þeirra sem fagna Jesú í upphafi dymbilvikunnar. Þau eru gjarnan klædd í hvíta kirtla eða klæði, en hvítur litur er tákn hreinleikans. Þau veifa pálmagreinum , eru jafnvel upp í trjánum til þess að ná sér í grein – eða til þess að sjá betur og þau leggja klæði á veginn. Þau eru saklaus.  Þau fagna Jesú og þau gleðjast yfir komu hans. Og það er fölskvalaus gleði.

Það er til önnur saga, sem reyndar er ævintýri eða dæmisaga þar sem börn og konungur, eða keisari koma við sögu. Það er sagan um nýju fötin keisarans. Keisarinn hafði mætur á nýjum fallegum fötum. Dag einn komu tveir svikahrappar til borgarinnar hans. Þeir þóttust vera vefarar sem sögðust kunna að vefa þann fegursta vefnað sem til væri. Sú náttúra fylgdi fötunum að þau væru ósýnileg hverjum þeim sem væri óhæfur í embætti sínu eða ófyrirgefanlega heimskur. (Í gamla daga var enginn tepruskapur í orðavali í barnasögunum).

Keisarinn vildi fötin og svikahrapparnir settu upp vefstóla og þóttust vefa. Þeir heimtuðu silki og gull, sem þeir settu í sína eigin poka. Eftir nokkurn tíma sendi keisarinn ráðgjafa sinn til þess að líta á vefnaðinn. Hann sá ekki neitt í vefstólnum, en þóttist sjá, því ekki vildi hann uppvísa aðra um heimsku sína. Keisarinn sendi svo annan  og allt fór fór á sama veg. Þá fór keisarinn sjálfur og eins fór fyrir honum. Hann sá engin klæði, en vildi ekki láta aðra vita af heimsku sinni og hældi vefnaðinum mjög. Hann ætlaði að vera í nýju fötunum frá  svikahröppunum í skrúðgöngunni í bænum. Þeir félagar færðu hann úr fötunum sínum og þóttust klæða hann í nýju fötin, sem voru svo létt að hann fann ekki fyrir þeim. Allir hrósuðu fötunum hver í kapp við annan. Hvílík fegurð, sagði fólk. En þá sagði barn í mannfjöldanum: “Hann er ekki í neinu!” Já, heyrið hvað sakleysinginn segir,” sagði fólk og brátt kölluðu allir: “Hann er ekki í neinu:” Keisarinn lét sig hafa það að ganga skrúðgönguna á enda í nærfötum sínum, en vissi að hann hafði látið blekkja sig.

Þessi saga danska ævintýraskáldsins H.C. Andersen segir svo margt. - Hvernig fullorðna fólkið getur talað gegn betri vitund til þess að leyna einhverju eða reyna að falla inn í hópinn – hafa sömu skoðun og fjöldinn. Vera hluti af heildinni.  

En um leið hvernig sakleysi barnsins getur bent á það sem satt er og rétt. Börnin sem fylgdu Jesú inn í Jerúsalem fundu að þarna fór maður sem þau gátu treyst. Þau voru ekki í hópnum sem seinna í sömu vikunni kölluðu: krossfestu, krossfestu. Það voru ekki börnin sem hrópuðu það. Þá hafa einhverjir örugglega hrópað gegn betri vitund til þess að falla inn í hópinn. Til þess að vera eins og aðrir. - Nei, börnin eru einlæg.

Fyrir all mörgum árum kom langveik stúlka inn í stórfjölskylduna mína. Hún var með hrörnunarsjúkdóm og maður sá hvernig sjúkdómurinn sótti á hana smátt og smátt. Þegar hún var á 13. ári vildi hún fermast. Móðir hennar spurði hvort hún vildi ekki fermast með sínum jafnöldrum. Nei, hún vildi fermast ári á undan og vegna þess að hún þekkti mig vildi hún að ég sæi um athöfnina. Og það var ákveðið. Móðir hennar undirbjó hana fyrir ferminguna. Hafði reyndar veitt henni trúarlegt uppeldi frá því hún var lítið barn.

Fermingin fór fram í Hafnafjarðarkirkju. Hún kom í hjólastólnum sínum upp að altarinu. Þegar ég spurði hana um ritningarversið sem hún hefði valið sér rétti hún mér lítinn miða. Ég tók við honum og las það sem á honum stóð: “Jesús sagði, ég er upprisan og lífið sá sem trúir á mig mun lifa þótt hann deyi.”

Eftir þessa fermingu fór ég í ferð til Kanada með kirkjukórnum. Meðan ég var þar bárust mér þær fréttir að stúlkan væri dáin og ég var beðinn um að jarða hana. Það var undarleg tilfinning að vera komin aftur í kirkjuna mánuði eftir ferminguna og nú til þess að kveðja þetta kæra barn.

Kirkjan var full af fólki og sorgin nánast áþreifanleg. Og ég man svo vel hversu gott og dýrmætt og mikilvægt það var að geta byrjað minningarorðin á ritningarversinu sem hún hafði sjálf valið sér við ferminguna:  “Jesús sagði: Ég er upprisan og lífið sá sem trúir á mig mun lifa þótt hann deyi.” - Þetta er boðskapur páskanna

Mér verður oft hugsað til þessarar stúlku þegar lítið er gert úr fermingum t.d. í fjölmiðlum og einlægni barnanna dregin í efa. Hún vissi að fermingin gat ekki beðið í eitt ár. Og ritningarversið hennar var henni mikilvægt. Talaði inn í líf hennar og aðstæður hennar. Gaf henni von og djörfung og styrk. - Já, slíkra er Guðs ríki. Eftir því sem ég eldist því vænna finnst mér um mína barnatrú. Trú sem ekki er að flækja hlutina of mikið.

Maður heyrir það oft nú til dags að hinn upplýsti og menntaði maður eigi að láta af þeim hindurvitnum að trúa. Hvað þá að trúa á upprisu Jesú Krists. Eða að trúa á líf eftir dauðann.

En einhverra hluta vegna þá fylgir sjaldnast gleði og hamingja slíku tali. - Það er umhugsunarvert. Þeir sem tala niður trú og kirkju er ekki boðberar gleðinnar, það er engin gleði í röddinni. Hafið þið tekið eftir því? Frekar reiði og pirringur.

Þetta held ég að við finnum flest. Og ég veit að börnin skynja þetta. Börnin sem fagna Jesú með pálmagreinum. Börnin sem sáu keisarann á nærbuxunum. Börnin sem fermast af einlægni og góðum hug. Börnin sem gleðjast yfir svo mörgu. Þó að okkur finnist það oft ekki svo merkilegt - En í dag skulum við leyfa barninu í okkur að fagna og gleðjast.

Kristur er upprisinn. Kristur er sannarlega upprisinn. Þetta er sá dagur sem Drottinn gjörði. Fögnum og verum glöð. Í Jesú nafni.
Amen.

Sr. Gísli Gunnarsson

Glaumbæ

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir