Heilsueflandi samfélag - vellíðan fyrir alla

Góð heilsa er gulli betri. Heilsa snýst um líkamlega, andlega og félagslega vellíðan og þegar samfélag leggur heilsu og líðan íbúa til grundvallar í heildarstefnumótun er hægt að tala um heilsueflandi samfélag.

Ýmislegt hefur áhrif á vellíðan okkar, annað en innri þættir eins og líkamleg og andleg heilsa. Ytri þættir, s.s. tækifærin sem nærsamfélagið býður upp á til heilsueflingar hafa einnig mjög mikil áhrif. Þegar samfélag, fólk, fyrirtæki og opinberar stofnanir/aðilar taka höndum saman og vinna með markvissum hætti í átt að sameiginlegu markmiði er möguleiki til stórkostlegra breytinga nær en margur heldur. Þau svið sem geta haft áhrif á vellíðan og heilsu fólks og draga úr tíðni og afleiðingum langvinnra sjúkdóma eru t.d. samgöngur, félagsleg þjónusta og aðgengi, skipulagsmál, hönnun bygginga og svæða, heilbrigðisþjónusta, skólasamfélagið, æskulýðs- og íþróttastarf og margt fleira.

Samvinnuverkefni allra íbúa

Embætti landlæknis hefur á undanförnum árum unnið að verkefninu „Heilsueflandi samfélag” og hafa sveitarfélög smám saman verið að hefja þátttöku í verkefninu (19 sveitarfélög eru þátttakendur, þegar þetta er skrifað). Verkefnið er byggt á samstarfi sveitarfélagsins og íbúum þess, og á sameiginlegri ábyrgðar- og eignarhaldstilfinningu allra sem hlut eiga að máli.

Það sem landlæknisembættið leggur upp með í verkefninu er að samfélögin móti sínar eigin áherslur, áhuga og markmið, en styðjist við opinberar ráðleggingar á þeirri vegferð. Þar má sem dæmi nefna næringarþáttinn, en þá þurfa stofnanir, s.s. mötuneyti leik- og grunnskóla, að veita gott aðgengi að hollum mat og drykk í samræmi við ráðleggingar. Skipulag verkefna og hönnun mannvirkja þarf að taka mið af markmiðinu að hvetja til hreyfingar,  huga þarf að gerð göngu- og hjólastíga, leikvalla og útivistarsvæða. Tryggja þarf aðgengi að hreyfingu fyrir alla aldurshópa.
Það er t.d. mun líklegra að foreldrar fari út að ganga með börn í barnavögnum ef gangstéttar eru til staðar.  Jafnframt þarf að efla forvarnir s.s. gegn áfengis-, tóbaks- og vímuefnaneyslu.

Hvers vegna og hvernig?

VG og óháð  vilja vera þátttakendur í þessu verkefni og vinna að bættu samfélagi í Skagafirði. Gangi verkefnið vel fyrir sig og unnið er samviskusamlega að því á öllum sviðum má vænta þess að lífsgæði og jöfnuður til lífsgæða okkar Skagfirðinga aukist. Stefnt er að aukinni hamingju og bættri heilsu hjá öllum íbúum, sem um leið eykur afköst og árangur, sem aftur gerir samfélagið okkar skilvirkara, sjálfbærara, hagkvæmara og eftirsóknarverðara til búsetu.

Eitt skref í þessa átt væri betri nýting á jarðhitanum okkar og ónýttum mannvirkjum til heilsueflingar Á Steinsstöðum er útisundlaug í eigu sveitarfélagsins sem nýta mætti betur fyrir íbúa svæðisins. Það mætti byggja yfir laugina og nýta hana allt árið, t.d. fyrir  ungbarnasund, sundleikfimi og vatnsyoga fyrir alla aldurshópa. Við þekkjum það öll, þegar dagurinn er stuttur og slyddan lemur rúðurnar að hafa okkur ekki upp úr sófanum til að stunda hreyfingu. Þá væri innisundlaug frábær kostur og eins og þeir þekkja sem nýtt hafa sundlaug endurhæfingar Heilbrigðisstofnunarinnar á Sauðárkróki er hreyfing í vatni aðgengilegur kostur fyrir þá sem ekki kjósa líkamsræktarstöðvar eða útivist til heilsueflingar. Hugsanlega mætti nýta félagsheimilin í eigu sveitarfélagsins í anda heilsueflandi samfélags.
Jarðhitann má nýta í auknum mæli til ylræktar. Ylrækt í nærsamfélaginu stuðlar að sjálfbærni innan héraðs. Þessi þáttur gæti aftur teygt anga sína áfram t.d. inn í skólasamfélagið, þar sem mötuneyti gætu boðið upp á betri næringu að stórum hluta úr Skagfirskum hráefnum, heilsumatvæli úr héraði.

Með heilsueflandi samfélagi viljum við leggja grunn að samstarfsvettvangi fyrir íbúa í Skagafirði til að vinna að sameiginlegu marki. Kennarar og nemendur í leik- og grunnskólum, flokkar í ungmenna- og íþróttastarfi, starfsfólk heilbrigðisstofnunarinnar, skokkhópar og aðilar í heilsuækt, sjálfboðaliðasamtök, smiðir og sorphirðustarfsmenn, skipulagsfræðingar, garðyrkjufræðingar og allir sem ónefndir eru, geta tekið þátt. Lausnir og leiðir geta verið afar fjölbreyttar og ekki er vafi á að íbúar hafa margar góðar hugmyndir hvað varðar „Heilsueflandi samfélag”. Okkar helsta gullnáma felst einmitt í mannauðnum í Skagafirði.
VG og óháð hlakka til samtalsins.

Fyrir þá sem vilja kynna sér verkefnið nánar:
https://www.landlaeknir.is/heilsa-og-lidan/verkefni/item28551/Heilsueflandi-samfelag

Inga Katrín D. Magnúsdóttir (skipar. 6 sæti á lista vinstri grænna og óháðra)
Helga Rós Indriðadóttir (skipar 10. sæti á lista vinstri grænna og óháðra)  

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir