Hérumbil, Húnaþingi - frumsýning í kvöld

Leikflokkurinn á Hvammstanga frumsýnir í kvöld leikritið Hérumbil, Húnaþingi. Hér er um að ræða frumflutning verksins á íslensku en á frummálinu heitir það Almost, Maine og er eftir John Cariani. Hefur það verið sett upp af 70 atvinnuleikfélögum og yfir 2.500 áhugaleikfélögum, flestum bandarískum. Ingunn Snædal þýddi verkið sérstaklega fyrir Leikflokkinn á Hvammstanga og er leikstjóri þess Sigurður Líndal Þórisson sem fékk hugmyndina að uppsetningu verksins eftir að hafa séð það á sviði í Bandaríkjunum. Sigurður leikstýrði einnig sýningu leikdeildar Ungmennafélagsins Grettis á Jesus Christ Superstar sem sýnd var í félagsheimilinu á Hvammstanga um páskana 2016. 

Hérumbil, Húnaþingi samanstendur af níu sjálfstæðum atriðum sem tengjast þó innbyrðis. Í þessum atriðum eru 20 hlutverk. Segir Hörður Gylfason, formaður leikflokksins, að ekki hafi náðst að manna öll hutverkin þannig að einhverjir leikaranna fari með tvö hlutverk. „Auðvitað hefði verið gaman að hafa leikara í öll hlutverk en það er bara stundum svona.“ Atriðin gerast öll á sama tíma, kl. 9 á föstudagskvöldi um miðjan vetur í þéttbýlinu Hérumbili í Húnaþingi. „Þetta eru svona gamansamar ástarsögur en hver þáttur leikritsins fjallar um eitt par í einu og hvernig samband þeirra gengur,“ segir Hörður.

Ekki hefur verið mikil starfsemi hjá Leikflokknum á Hvammstanga undanfarin ár og segir Hörður að þetta muni vera þriðja uppsetningin á tíu árum. „Það hefur verið erfitt að manna bæði leik og önnur störf en nú er smá meðbyr og því um að gera að keyra þetta í gang. Allir sem koma að sýningunni eru heimamenn og það er gaman að því en það er nú þannig að í svona litlu plássi er alltaf sama fólkið í þessu og því má ekki vera of mikið að gerast svo fólk fái ekki leið á því. Sem betur fer eru einhverjir klárir í svona verkefni og vonandi að fólk komi og sjá þetta leikrit og hafi gaman af.“

Hérumbil, Húnaþingi verður frumsýnt á í kvöld, 15. desember kl. 20:00. Tvær aðrar sýningar eru fyrirhugaðar, á laugardags- og sunnudagskvöld og verða þær sýningar einnig kl. 20:00. Nánari upplýsingar má finna á Facebooksíðunni Hérumbil, Húnaþingi.

„Það er um að gera að skella sér í leikhús rétt fyrir jólin og gleyma sér aðeins,“ segir Hörður að lokum.

 

Áður birt í 47. tbl. Feykis.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir