HM stemning í Höfðaborg

Nú fer að styttast í Leikinn með stóru elli þar sem íslenska karlalandsliðið í fótbolta leikur sinn stærsta leik fram til þessa, fyrsta leik sinn á lokamóti HM í knattspyrnu og það á móti Argentínu. Spennan er mikil í Moskvu þar sem leikurinn mun fara fram og stemningin ekki síðri hér uppi á Íslandi og langt norður í land. Víða má búast við því að fólk grúbbi sig saman og horfi á leikinn og heyrst hefur af HM stemningu í Höfðaborg á Hofsósi.

Að sögn Kristjáns Jónssonar, sem situr í hússtjórn, verður ekki síður spennandi að fylgjast með þeirra manni, Kára Árnasyni, en mamma hans, Fanney Friðbjörnsdóttir Þórhallssonar, er úr Hofsósi. Þá er ekki síður gaman að vita hvort hinn Skagfirðingurinn í liðinu, Hólmar Örn Eyjólfsson, fylgi eftir góðu gengi í seinasta leik og tækli einhverja stórstjörnuna í liði Argentínu.

„Ég vil endilega hvetja fólk til að mæta og eiga skemmtilega  stund saman í Höfðaborg,“ segir Kristján og eins og vænta má verða seldar veitingar á staðnum.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir