Höfðaskóli sigurvegari í Framsagnarkeppni grunnskólanna í Húnavatnsþingi

Þessi þrjú þóttu lesa best. F.v. Klara Ósk Hjartardóttir úr Höfðaskóla, Valdas Kaubrys úr Húnavallaskóla og Máney Dýrunn Þorsteinsdóttir úr Grunnskóla Húnaþings vestra. Mynd: Facebooksíða Grunnskóla Húnaþings vestra.
Þessi þrjú þóttu lesa best. F.v. Klara Ósk Hjartardóttir úr Höfðaskóla, Valdas Kaubrys úr Húnavallaskóla og Máney Dýrunn Þorsteinsdóttir úr Grunnskóla Húnaþings vestra. Mynd: Facebooksíða Grunnskóla Húnaþings vestra.

Klara Ósk Hjartardóttir, nemandi í Höfðaskóla á Skagaströnd, bar sigur úr býtum í Framsagnarkeppni grunnskólanna í Húnavatnsþingi sem haldin var á Skagaströnd í síðustu viku. Þar spreyttu nemendur skólanna fjögurra í Húnavatnssýslum, Grunnskóla Húnaþings vestra, Húnavallaskóla, Blönduskóla og Höfðaskóla, sig í vönduðum upplestri og átti hver skóli þrjá fulltrúa í keppninni.

Framsagnarkeppnin er í raun átak þar sem lögð er áhersla á að þjálfa nemendur í 7. bekk í vönduðum upplestri. Það hefst á degi íslenskrar tungu í nóvember og lýkur með lokahátíð í mars. Vikurnar á undan velja skólarnir nemendur til að vera fulltrúar þeirra í lokakeppninni.

Eins og áður segir var það Klara Ósk í Höfðaskóla sem varð í fyrsta sætinu, í öðru sæti varð Valdas Kaubrys, nemandi í Húnavallaskóla og í þriðja sæti varð Máney Dýrunn Þorsteinsdóttir úr Grunnskóla Húnaþings vestra.

Raddir, samtök um vandaðan upplestur og framsögn, veittu peningaverðlaun fyrir fyrstu þrjú sætin. Allir keppendurnir fengu tvenn bókaverðlaun. Að auki var afhentur farandskjöldur sem gefinn er af sjóði sem stofnaður var til heiðurs Grími Gíslasyni. Skólinn sem hlýtur fyrsta sætið varðveitir skjöldinn fram að næstu keppni og er það Höfðaskóli sem hlýtur þann heiður næsta árið.

Dómarar voru að þessu sinni Sigrún Grímsdóttir, Dagný Marín Sigmarsdóttir og Hrönn Bergþórsdóttir, fulltrúi Radda.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir