Horft norður

Á ganginum fyrir utan skrifstofuna mína, hangir landakortið hér á myndinni. Þegar gesti ber að garði þá geri ég í því að sýna þeim kortið. Þorpið, fyrirgefið kaupstaðurinn Blönduós, er þar sem lítinn svartan blett. Á hann bendi ég gestum, með því sem ég myndi kalla glíju ef ég mætti íslenska enskt orð. Aðrir staðir, sem ég hefði nú frekar haldið að sæjust á svona korti, eru þar ekki, Sauðárkrókur, hvað þá Skagaströnd.

Kortið er hér á veggnum vegna þess að kollegar mínir eru flestir hverjir sérfræðingar í mannvist á norðurslóðum. Þetta er fólk sem hefur varið löngum stundum í snúsnú yfir heimskautsbauginn. Nú er norðrið afstætt hugtak. Einn kollegi minn er fæddur í norður Skotlandi. Annar ólst upp í Manchester á norður Englandi. Þrír koma frá Kanada, Norður Ameríku. Allt eru þetta þó suðursveitir í huga þess sem ólst upp í köldum faðmi Norður-Atlantshafsins við botn Húnaflóa.

Kunningjar mínir íslenskir, ég get varla kallað þá vini, segja að á Blönduósi sé hvasst, ljótt og lítið skjól. Þetta segja þeir mér eins og þeir viti það nú betur en ég. Blönduós er svartur blettur segja þeir, það er von þú hafir flúið.. Ég viðurkenni að maður lærði vonbrigði á Blönduósi. Hann var margur sumardagurinn sem byrjaði vel, í sólskini og logni, og hvítur reykurinn úr Mjólkurstöðinni stóð þráðbeinn upp í loftið einsog Vatíkanið hefði falið Sveini, Palla Svavars, Kristófer og Lilla Tedd að finna næsta páfann. En á miðjum morgni kom hafáttin, svo til beint af norðurskautinu, og breytti logni í kuldanæðing.

 Það er ákveðin von sem býr í landakortum, fyrirheit um aðra staði, annað líf kannski. Þegar ég sit yfir kortum þá verður mér stundum hugsað til Skúlahornsins, sem gnæfir yfir bryggjunni á Blönduósi bæði hátt og fagurt. Þar lékum við okkur oft krakkarnir. Stundum var það á sumarkvöldi þegar hafáttina hafði lægt og sólin var við það renna blóðrauð í sjóinn í norðri. Þeir eru ekki margir staðirnir þar sem sólarlagið verður eins blóðrautt og á Blönduósi. En þá man ég líka eftir því að hafa horft á strandferðarskipin, Fellin og Fossana, sigla frá bryggju og smækka þangað til þau voru eins og pökkur á íshokkívelli við sjóndeildarhringinn í hánorðri. Þeirri sjón fylgdi einhver óttablandin tilhlökkun, fyrirheit um útlönd, spennandi og hættuleg.

Þegar ég er spurður að því núna, hvaðan ég sé, þá segi ég „að norðan“. Foreldrar mínir voru efnahagslegir flóttamenn á Blönduósi, segi ég, ættir þeirra mest í Skagafirði og Hörgárdal, ein langamma úr Vatnsdalnum. Þó togar þorpið - miklu flottari titill en kaupstaður - Blönduós alltaf í. Fjötrar eru jú bæði slæmir og góðir. Í ljóði Jóns úr Vör, sem eins og margir mætir menn settist að í Kópavogi segir líka: “Enginn slítur þau bönd, sem hann er bundinn heimahögum sínum. ... þorpið fer með þér alla leið“.

Ég skora á Hörð Sigurðsson að koma með pistil í Feyki.

Áður birst í 20. tbl. Feykis.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir