Hvíti riddarinn lagður að velli í Mosfellsbæ

Murielle Tiernan skoraði tvisvar gegn baráttuglöðum riddurum í Mosfellsbæ og er hún markahæst Stóla með 11 mörg í sumar. Mynd: PF.
Murielle Tiernan skoraði tvisvar gegn baráttuglöðum riddurum í Mosfellsbæ og er hún markahæst Stóla með 11 mörg í sumar. Mynd: PF.

Stelpurnar í Tindastól mættu Hvíta riddaranum á svampblautum velli Tungubakka í Mosfellsbæ sl. miðvikudagskvöld og kræktu sér í þrjú stig. Stólar voru mun betri aðilinn í leiknum en náðu ekki að skora nema þrjú mörk á móti einu heimamanna. Með sigrinum styrktu þær stöðu sína á toppnum með 18 stig, þremur fleiri en Augnablik sem á einn leik til góða.

Það var Murielle Tiernan sem opnaði markareikning Tindastóls á 21. mínútu og skoraði fyrra mark sitt í leiknum en hún hefur verið drjúg í markaskoruninni fyrir sitt lið. Stuttu síðar bætti Guðrún Jenný Ágústsdóttir marki við fyrir stólana en hún hefur einnig verið að hlaða inn mörkum í sumar. Á 27. mínútu minnkaði Sigrún Erla Lárusdóttir muninn fyrir Hvítariddarann og staðan 1-2 Stólum í vil en þannig var staðan í hálfleik.

Þegar tvær mínútur voru liðnar af seinni hálfleik jók Murielle Tiernan forskotið á ný þegar hún smellti boltanum í net andstæðinganna ellefta mark hennar fyrir Stólana í sumar staðreynd. Ekki var skorað meira þrátt fyrir dauðafæri og yfirburði gestanna.

Jón Stefán Jónsson, þjálfari Tindastóls segir leikinn hafa gengið vel miðað við erfiðar aðstæður. „Eins og frægt er orðið hefur rignt mikið á höfuðborgarsvæðinu og því þeir vellir sem eru lagðir náttúrulegu grasi orðnir eins og gegnblautur svampur. Yfirburðir okkar voru samt miklir og áttum við að skora í það minnsta fjögur, fimm mörk til viðbótar. Skutum þrisvar sinnum í marksúlurnar auk þess sem Hvíti Riddarinn varði fjórum sinnum á línu, enda fjöldi þeirra staddur oftar en ekki á marklínunni. Heimastúlkur vörðust með nánast allt liðið inni í teig og ætluðu sér bara að fá á sig sem fæst mörk eftir stórtöp í leikjunum á undan,“ segir Jón Stefán.

Næsti leikur Stóla er áætlaður fimmtudaginn í næstu viku, 19. júlí á Króknum og þá er um að gera að drífa sig á völlinn og hvetja stelpurnar til sigurs gegn Völsungi Húsavík.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir